Vinnumarkaður „Það er morgunljóst í mínum huga að ef ekki komi til alvöru leiðréttinga á launum verkafólks í kjarasamningum í byrjun næsta árs þá er ekkert annað í stöðunni en að fara í blóðug átök á almenna vinnumarkaðnum. Þetta viðbjóðslega óréttlæti sem nú birtist almennu verkafólki er lýtur að ofurlaunahækkunum stjórnenda verður að svara af fullri hörku,“ skrifar Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
„Næstráðendur taka risastökk upp á við og hækka launatekjur tvö hundruð efstu í þeim flokki um 600 þús. kr. á mánuði og eru 2,2 milljónir kr. Þá er búið að sleppa næstráðendunum hjá Íslenskri erfðagreiningu sem skekkja þennan lista verulega. Með þá innanborðs í þessum útreikningum væri talan rúmar 2,6 milljónir kr. á mánuði og væri þessi hópur þar með sá tekjuhæsti – sem hlýtur að teljast harla óvenjulegt,“ segir á vef Frjálsrar verslunar, sem nú hefur gefið út sitt árlega tekjublað.
„Ég held að við verðum að skoða hvaða árangri við höfum náð,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í þættinum Sprengisandi fyrir fáum vikum. Hann vitnar til þess að meðal kaupmáttur hefur vaxið, verðbólga er lág og fleira er hægt að týna til. En munu þeir sem minna bera úr býtum sættast á þær staðreyndir að aðrir rjúki upp í launum.
Gylfi Arnbjörnsson sagði á sama vettvangi að svo verði ekki. Hann sagði tilraunina um lægri launahækkanir og aukin kaupmátt í framhaldi hafi mistekist. Á Norðurlöndunum er farin önnur leið, þolinmóðari leið með lægri launahækkanir. „Þegar við skoðum þetta þrjátíu árum síðar, verður að viðurkennast að þeim hefur tekist betur að auka kaupmátt með lægri launahækkunum heldur en okkur með meiri launahækkunum.“
Vilhjálmur Birgisson segir forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins hafa staðið og öskrað í aðdraganda síðustu kjarasamninga, „…og sögðu að ef ekki yrði samið um launahækkanir í kringum 2,8%, þá yrði óðaverðbólga og undir þetta tók forysta ASÍ. Eins og allir muna þá splæstu Samtök atvinnulífsins í mikla auglýsingaherferð sem kvað á um að semja yrði um 2,8%.“
„Ég held að það sé alveg ljóst að við erum að fara í erfiða kjarasamningalotu í vetur,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulifsins. „Við erum að ná miklum kaupmætti á grundvelli hóflegra kauphækkana.“
„Þessir snillingar sögðu að ef verkafólk fengi 20.000 kr. launahækkun á mánuði þá myndi það klifra upp allan launastigann! Er þá ekki gott núna að láta 40% launahækkun stjórnenda klifra niður launastigann?“ Áréttar Vilhjálmur Birgisson.