Öfunduð af drápsvöxtum
„Ég vitna þá í Halla og Ladda, með leyfi forseta, og segi: Mér þætti gaman að sjá það.“
Alþingi „Seðlabankastjóri hefur látið hafa eftir sér tvennt í nýlegum viðtölum: Í fyrsta lagi að við búum við þá hamingju, Íslendingar, að hafa hátt vaxtastig. Ég er viss um að margir sitja heima hjá sér og fagna þeim tíðindum mjög sem borga hér drápsvexti í hverjum mánuði og líka þeir sem reka lítil fyrirtæki. Og síðan hefur hann líka tjáð okkur að Seðlabankastjórar nágrannalandanna liggi á hnjánum og biðji þess að fá svipað ástand í vaxtamálum og
hér er. „Ég vitna þá í Halla og Ladda, með leyfi forseta, og segi: Mér þætti gaman að sjá það.“
Þetta er bein tilvitnun í þingræðu þingmannsins Þorsteins Sæmundssonar í Miðflokki. Þorsteinn hélt áfram og sagði:
„En ég hélt satt að segja þegar ég sá þetta haft eftir Seðlabankastjóra að þetta væri enn ein andvana tilraunin af hans hálfu til að halda uppi spaugi. En ég held samt sem áður að svo sé ekki. Og ef það er svo að Seðlabankastjóra er virkilega alvara með það sem hann segir um þetta, að við séum gæfusöm að hafa hér hæstu vexti í hinum vestræna heimi, er það enn eitt dæmið um að Seðlabankastjóri er rangur maður á röngum stað í vitlausu húsi. Hann er búinn að vera þarna nokkuð lengi, herra forseti. Ég hefði nú lagt til að hann axlaði sín skinn sem fyrst ef hann getur ekki staðið fyrir því að hér á landi sé vaxtastig sem er boðlegt.“