Ófullnægjandi svör Hafró – pólitískur þrýstingur ráðherra
Hafró gefur til kynna að stofnunin sé undir óbærilegum pólitískum þrýstingi frá ráðherra.
Sigurjón Þórðarson skrifar:
Megnið af skýringum Hafró er varið í almennt tal um varúðarreglu og skilgreiningu á henni. Eftir lestur bréfsins þá stendur gagnrýni Axels Helgasonar fyrrum formanns LS óhögguð, um ranga útreikninga á afla fyrri ára, enda svörin af ódýrari gerðinni. Í ljósi alvarleika málsins fyrir afkomu fjölmargra fjölskyldna, þá væri lágmarkið að gera litla tilraun sem tæki dagpart að framkvæma og ganga þannig úr skugga um réttmæti gagnrýninnar.
Í skýringunum er ekkert fjallað um að stofnmatið sé ekki í samræmi við aðrar mælingar þ.e. afla á sóknareiningu eða netarallið. Staðreyndin er sú að stofnmælingin í botnvörpu á grásleppu er í raun bara verulega ónákvæm mæling á breytingu á stofnstærð með ákveðinni aðferð, sem er síðan ekki í neinu samræmi við tvær aðrar mælingar, eins og að ofan greinir.
Það er gott að hafa það í huga að stofnmatið er ekki bein magnbundin mæling á fiskistofninum heldur vísitala á breytingu.
Það að varpa breytingu stofnvísitölu og yfir í beint magnbundið mat, er ónákvæmt og háð fyrir fram gefnum forsendum sem byggja á veikum líffræðilegum grunni, enda margt á huldu um líffræði fisksins. Hafró þyrfti að gera betur grein fyrir umræddum forsendum þannig að hlutlausir vísindamenn geti lagt mat á forsendurnar.
Það að leggja síðan fram einhverja endanlega aflatölu og ekki með neinum öryggismörkum, sem ekki má hnika í ljósi annarra mælinga er stórfurðulegt. Framsetning og tímasetning svara Hafró gefur til kynna að stofnunin sé undir óbærilegum pólitískum þrýstingi frá ráðherra sem virðist ganga með það í maganum að slátra fjárhagi lítilla fjölskyldufyrirtækja og koma í veg fyrir nýliðun í sjávarútvegi með góðu eða illu.
Það jákvæða í yfirlýsingu Hafró er að stofnunin segist ávallt vera tilbúin í að fara yfir forsendur veiðistjórnunarinnar og vilja vera í góðri samvinnu við sjómenn. Það hlýtur þá að megi ganga út frá því sem vísu að stofnunin fái hlutlausan aðila til að sannreyna vafasamar fullyrðingar um nýtingatölur.
Einnig hlýtur stofnunin að svara efnislega gagnrýni helstu fræðinga þjóðarinnar í grásleppu sem hafa rannsakað fiskinn mest á sl. áratugum þ.e. forstöðumanns Náttúrustofu Nv og framkvæmdastjóra Biopol.