- Advertisement -

Oft misboðið meðvirknin og vinnubrögðin í Samfylkingunni

Að taka ekki skýra afstöðu gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi í öllum tilvikum er hræsni.

Sema Erla Serdar er ekki sátt við að Ágúst Ólafur Ágústsson taki aftur sæti sitt á Alþingi. „Hvað Ágúst Ólaf varðar getur hann beðið um annað tækifæri í prófkjöri flokksins og/eða hjá kjósendum í næstu kosningum. Samfélagsmiðlar duga bara ekki til,“ skrifar hún á Facebook.

„Ég hef verið í Samfylkingunni í meira en áratug og gegnt hinum ýmsu ábyrgðarstöðum fyrir flokkinn, meðal annars stöðu formanns framkvæmdastjórnar flokksins. Mér hefur oft misboðið meðvirknin og vinnubrögðin innan flokksins en sjaldan jafn mikið og nú. Að taka ekki skýra afstöðu gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi í öllum tilvikum er hræsni. Ég er viss um að það myndi heyrast hærra í flokksfélögum mínum ef þingmaður annars flokks gerðist sekur um kynferðislega áreitni og sæti sem fastast á þingi,“ skrifar hún.

„Þetta er kannski ekki vinsælasta skoðun dagsins hjá félögum mínum í Samfylkingunni en ef við ætlum að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni og ofbeldi á vettvangi stjórnmálanna og í samfélaginu öllu þurfum við að gera það af heilindum og hugrekki en ekki eftir hentugleika og því hver gerandinn er,“ skrifar Sema Erla.

„Kynferðisleg áreitni er með öllu ólíðandi, óháð því hver birtingarmynd hennar er, hvar hún á sér stað og hver það er sem beitir henni. Að flokkur jafnaðarmanna, með forystukonur metoo-byltingarinnar innanborðs, flokkur sem segist berjast gegn kynbundnu ofbeldi, flokkur mannréttinda og femínískrar hugmyndafræði, skuli vera með fulltrúa á þingi sem hefur gerst sekur um kynferðislega áreitni er með öllu óásættanlegt og það er siðlaust. Það gerir lítið úr öllum þeim árangri sem náðst hefur í baráttunni gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi í stjórnmálum og það gerir lítið úr raunum þolenda slíks ofbeldis. Flokkurinn getur ekki furðað sig á því að konur endist illa í ábyrgðarstöðum innan flokksins og á sama tíma boðið ítrekað upp á starfsumhverfi eins og þetta.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: