Gunnar Smári skrifar:
Hér má sjá þróun leiguverðs á 2. herbergja íbúðum (græn lína) og 3. herbergja (blá lína) undanfarin ár. Eins og sést hefur leiguverð hækkað mikið og étið upp alla kaupmáttaraukningu launafólks á leigumarkaði og snúið niður lífskjör öryrkja og eftirlaunafólks. Ófremdarástand á húsnæðismarkaði hefur verið mesta ógnin frá Hruni við lífskjör fólks með miðlungstekjur og þar undir. En ég ætlaði ekki að vekja athygli á því að þessu sinni, við munum ræða þetta ástand gaumgæfilega í kosningabaráttunni og fullkomið getuleysi stjórnvalda til að mæta því.
Ég vil vekja athygli ykkar á að leiguverð hefur ekki lækkað í kórónafaraldrinum og kreppunni sem henni fylgir. Það að tvær milljónir túrista séu horfnar og þar með álag af þeirra völdum á húsnæðismarkaðinn (Airbnb o.fl.) hefur ekki haft áhrif til lækkunar leiguverðs. Sem passar ekki við það hefur verið haldið að ykkur undanfarna áratugi, næstum öld; að hinn svokallaði markaður leitaði jafnvægis framboðs og eftirspurnar; að þegar á fimmta þúsund Airbnb-íbúða í Reykjavík færu inn á almennan leigumarkað myndi það leiða til lækkunar. Einkum í vesturhluta borgarinnar, þar sem allt að 70% íbúða við sumar götur voru skráðar á Airbnb. En þetta hefur ekki gerst. Nýjustu upplýsingar um íbúðaverð hjá Þjóðskrá eru frá nóvember síðastliðnum. Ef við berum það saman við verðið í nóvember 2019 (til að forðast árstíðarsveiflur) þá hefur verð á 2. herbergja íbúðum hækkað um 4,8% milli ára og verð á 3. herbergja íbúðum um 6,3%. Á sama tíma hækkaði almennt verðlag um 3,5%.
Í miðri kórónakreppu hækkar leiguverð því enn umfram verðlag. Ekki eins mikið og áður, en samt þó nokkuð. Markaðurinn virkar því ekki eins og haldið er fram, sem sjálfvirkur sveiflujafnari. Þegar framboð eykst og tekjur leigjenda lækka þá hækkar verðið samt. Ástæðan er meðal annars sú að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa ýtt undir hækkun eignarverðs, sem ávallt er ákveðin viðmiðun leiguverðs. Síðan er það svo að stærstu leigufélögin, sem eru markaðsráðandi varðandi verð, þola ekki að lækka leiguverð vegna þess að það kallaði á endurskoðun verðmætis eigna félaganna og lánadrottnar þeirra, fyrst og fremst bankarnir, þola ekki slíka lækkun, þeir myndu fá þessi félög í fangið. En það sem helst veldur þessari tregðu til lækkunar er langvarandi húsnæðisekla. Stjórnvöld hafa ekki brugðist við húsnæðisvanda fólks, fyrst og fremst lágtekjufólks á leigumarkaði með því að byggja húsnæði.
Þolendur þessa ástands er láglaunafólkið sem nú er atvinnulaust og með þó nokkuð lægri tekjur en í fyrra en hærri húsnæðiskostnað. Þegar ráðherrra stæra sig af árangri sínum í efnahagsmálum ættu þeir að horfa á heiminn með augum þessa fólks, ekki vina sinna í Garðabænum.