„Í fyrrahaust náðist samstaða allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins um breytingar á lögum til að vernda börn á flótta. Í greinargerð með frumvarpinu var áréttaður vilji löggjafans um að ávallt skuli taka til efnislegrar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi er í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Þá einsettu sömu flokkar sér að hefja strax endurskoðun á útlendingalögunum til að tryggja rétt barna, virða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Fjórum mánuðum eftir að ríkisstjórnin tók við er sú vinna ekki hafin. Og það sem er enn verra, þrengt hefur verið að réttindum barna í þessari ömurlegu stöðu. Nú virðist hæstv. dómsmálaráðherra hafa hunsað vilja löggjafans fullkomlega með nýrri reglugerð. Veik börn sem áður hefðu átt möguleika á skjóli og öryggi verða nú send úr landi.
Þetta gerist í tíð núverandi ríkisstjórnar og að því er virðist sama dag og hæstv. dómsmálaráðherra er varin vantrausti fyrir embættisafglöp af flestum stjórnarliðum. Því hlýt ég að spyrja hæstvirtian ráðherra: Vissi hún af þessari reglugerð þegar vantraust á dómsmálaráðherra var borið upp? Hvað finnst henni um þessa reglugerð?
Þetta er óforskammað, ómannúðlegt, kaldrifjað og hlýtur að vera ísköld vatnsgusa beint framan í Vinstri græn sem talað hafa fyrir meiri mannúð í þessum málaflokki. Nú reynir virkilega á hvort málflutningur þeirra eru bara orðin tóm.
Ég spyr því hæstvirtan forsætisráðherra: Mun hún tafarlaust rísa upp og andmæla framferði hæstv. dómsmálaráðherra?“
Uppfært:
„Þingmaðurinn spyr hvort mér hafi verið kunnugt um efni þeirrar reglugerðar sem hann vísar til í fyrirspurninni, þá var mér það ekki. En vissulega var sú reglugerð sett í opið samráðsferli en það hafði farið fram hjá mér að fylgjast með efni þeirrar reglugerðar,“ sagði Katrín Jakobsdóttir í umræðum sem hún átti við Loga Einarsson á Alþingi rétt í þessu.
Ég hef síðan í kjölfarið sett mig inn í þá gagnrýni sem Rauði krossinn hefur sett fram á efni reglugerðarinnar, þar sem Rauði krossinn telur of langt gengið í því að þrengja að þeim sem hingað koma á flótta og af því að hv. þingmaður spyr mig sérstaklega um viðbrögð mín, þá hef ég óskað eftir samtali milli forsætisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis til að fara yfir nákvæmlega þessa gagnrýni Rauða krossins og fara yfir þetta mál þar heildstætt út frá þeirri gagnrýni og hvernig sé rétt að bregðast við því. Ég vil ítrekað að í kjarna útlendingalaganna sem hér voru samþykkt á sínum tíma er sérstaklega rætt um það að mannúð eigi að vera okkar leiðarljós í móttöku flóttafólks og ekki síst barna. Þess vegna er mikilvægt að við tökum þá gagnrýni sem birst hefur alvarlega og við förum yfir hana á vettvangi ríkisstjórnarinnar,“ sagði hún.
„Háttvirtur þingmaður spyr líka eftir þeirri þverpólitísku vinnu sem var boðuð í stjórnarsáttmála, ekki bara um endurskoðun á útlendingalögum heldur líka um framkvæmd útlendingalaga. Ég hef spurt sérstaklega eftir þessu og hef fengið þau svör að enn vanti tilnefningar frá tveimur stjórnmálaflokkum á Alþingi í þá nefnd. Ég hef því óskað eftir að ýtt verði á eftir þeim tilnefningum þannig að sú vinna geti hafist sem fyrst því að ég hef lagt á það áherslu, eins og hváttvirtur þingmaður líka, að um þetta mál skapist sem mest þverpólitísk samstaða. Það skiptir verulegu máli fyrir málaflokk á borð við þennan.“