Fréttir

Öfgamenn með skrýtnar jaðarskoðanir

By Miðjan

September 26, 2018

„Vera má að draga megi úr umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, en ég vil leyfa mér að vara við því að öfgamenn með skrýtnar jaðarskoðanir fái að ráða hér ferð þó að háværir séu,“ sagði Guðmundur Andri Thorsson á Alþingi í gær.

Hann skaut á forystu Vg og sagði: „Ég minni á að mikill meiri hluti landsmanna vill hafa öflugt ríkisútvarp með óbreytta og fjölbreytta starfsemi og alveg sérstaklega kjósendur VG sem kusu flokkinn ekki til þess að útfæra landsfundarályktanir Sjálfstæðisflokksins.“

Guðmundur Andri sagði að styrkja þurfi styrkja einkarekna fjölmiðla. „…en það verður ekki gert með því að veikja Ríkisútvarpið. Vandi hefðbundinnar fjölmiðlunar víða um lönd er út af gjörbreyttu rekstrarumhverfi í kjölfar tæknibyltingar sem hefur gert það að verkum að fólk sækir fróðleik og skemmtun á samfélagsmiðla þar sem efni er jafnvel markvisst komið fyrir í því skyni að villa okkur sýn. Á slíkum tímum verður ekki nógsamlega undirstrikað hve mikilvægt er að hafa fjölmiðil sem fjallar af yfirvegun og vandvirkni um málefni líðandi stundar.“