„Ofbeldi er ekki einkamál! Varð vitni í dag að sorglegu ofbeldi móður gegn tveimur ungum börnum gætu verið tveggja ára tvíburar, væntanlega sínum (?) Ég var að fara í vinnuna í Sundlaug Kópavogs kl. rétt fyrir 17. Mikil umferð. Ég heyri trylltan barnsgrát og stoppa við ljós og lít við. Þá sé ég börnin í stórum tvöföldum hjólabíl (leikfanginu sínu), öskrandi í ótta á gatnamótum Urðarbrautar og Borgarholtsbrautar. Þau hafa ekki mikinn kraft til að knýja svona stóran „bíl“ á móti vindi eða eiga yfir höfuð ekkert erindi svona ung í þetta leikfang.“
Þetta segir Helga Guðrún Gunnarsdóttir.
„Móðirin hafði strunsaði fyrir götuhornið og börnin sáu hana hverfa á braut. Þau urðu sturluð og öskrin yfirgnæfðu umferðargnýinn og hljóðin í rokinu, en hún lét sem hún sæi þau ekki. Annað barnið henti sér út úr hjólinu og litli kroppurinn rúllaði niður í átt að akveginum. Náði sér á fætur og hljóp til hennar fyrir hornið. Hitt þorði ekki en stóð sturlað í leikfanginu. Hún tók bara upp símann og lét sem ekkert væri. Það var eiginlega kominn þarna massa umferðarhnútur.
Ég var að verða of sein í vinnuna og fór inn. Enn sé ég þessa mynd fyrir mér og ásaka mig fyrir að hafa ekkert aðhafst vegna þess að ofbeldi er ekki einkamál. Börnin virtust vön því að vera skilin eftir. Alla vega voru þau ekki róleg við hvarf hennar. Þetta var sársaukafullt á að horfa og eiga í huga sér.“