„Því miður eru engin teikn á lofti um að borgaryfirvöld sjái að sér og munu þess í stað halda sínu striki í því að hafna öllu samráði við rekstraraðila með þeim afleiðingum að þeir síðustu sem þar standa enn vaktina munu verða nauðbeygðir til að skella í lás og loka. Hroki og yfirgangur borgaryfirvalda í garð kaupmanna við Laugaveg og hluta Skólavörðustígs er ekkert annað en hreint og klárt ofbeldi.“
Þetta er meðal þess sem lesa má úr grein sem Matthildur Skúladóttir skrifar í Moggann í dag. Matthildur hefur bæði búið og starfað í miðborginni.
„Eitt helsta viðfangsefni meirihlutans í Reykjavík undir forystu Dags B. hefur verið að eyðileggja helstu verslunargötu borgarinnar um áratuga skeið, Laugaveginn. Það hefur hann gert með yfirgangi, samráðsleysi og tillitsleysi gagnvart verslunarrekendum við Laugaveginn, flestum til áratuga. Á íslensku kallast svona vinnubrögð ofbeldi. Nú hefur verið ákveðið að banna alla bílaumferð um götuna, þrengt að Laugaveginum með risabyggingum í næsta nágrenni. Niðurstaðan er sú að velflestir þeirra kaupmanna sem hafa starfað þar um áratuga skeið eru farnir eða eru á leið í önnur hverfi borgarinnar eða í önnur sveitarfélög.
Það sama á sér stað á Skólavörðustíg neðan Bergstaðastrætis, en þeim götuhluta á einnig að loka fyrir umferð. Ekkert tillit hefur verið tekið til mótmæla margra verslunarrekenda þar. Tillitsleysið er algjört.
Ekkert lát hefur verið á því að þrengja aðkomu að miðbænum og undanfarin ár hafa einna helst komið þangað erlendir ferðamenn, mótmælahópar á Austurvelli, starfsmenn fyrirtækja og stofnana í miðborginni, borgarfulltrúar, ráðherrar og þingmenn. Nú þegar svo ferðamennirnir eru horfnir á braut blasir við að verslun og veitingarekstur á þessu svæði mun verða fyrir enn meiri búsifjum. Nú hefði verið lag fyrir borgaryfirvöld að endurmeta stöðuna í ljósi neikvæðra efnahagslegra áhrifa covid 19-farsóttarinnar og styðja rekstraraðila á Laugavegi og Skólavörðustíg til að efla og bæta rekstrarumhverfið með því að gera aðgengi að verslunum og þjónustu betra og falla frá heilsárslokun þessara gatna fyrir bílaumferð.
Samtal borgaryfirvalda við kaupmenn og húseigendur á Laugavegi og Skólavörðustíg er nánast ekkert. Hroki borgaryfirvalda í þeirra garð er hreint út sagt ótrúlegur. Áður fyrr voru samskipti kaupmanna og borgaryfirvalda um aðgerðir á Laugaveginum mjög góð. Það samstarf skilaði sér í glæsilegri endurnýjum götunnar. Í dag er samráð borgaryfirvalda við hagsmunasamtök Laugavegar í algjöru frostmarki.“