Neytendur Meira en fimmtíu prósenta munur er á leikskólagjaldi í Reykjavík og í Garðabæ. Þau eru lægst í Reykjavík og hæst í Garðabæ. Alþýðusamband Íslands gerði könnun á verðinu.
„Niðurstöður úttektar verðlagseftirlits ASÍ á leikskólagjöldum sveitarfélaganna sýna gjaldskrárhækkun í sjö sveitarfélögum af sextán miðað við janúar 2017, í þremur sveitarfélögum hefur gjaldið lækkað en er óbreytt í sex. Lægst eru leikskólagjöldin í Reykjavík,“ segir á vef ASÍ
Þar segir einnig: „Sextán fjölmennustu sveitarfélögin voru í úrtakinu. Mikill verðmunur er á hæstu og lægstu leikskólagjöldunum (almennu gjaldi) eða 52% sem gerir 13.231 kr. á mánuði eða ríflega 145.500 krónur á ári. Lægstu almennu leikskólagjöldin (miðað við 8 tíma með fæði) eru í Reykjavík á 25.234 kr. á mánuði á meðan hæstu leikskólagjöldin eru í Garðabæ á 38.465 kr. Leikskólagjöld fyrir forgangshópa eru einnig lægst í Reykjavík eða 16.770 á mánuði (8 tímar með fæði) en hæst hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, 29.512 kr. en þau hækkuðu um 1,5% um áramótin. Mikill munur er því á lægstu og hæstu leikskólagjöldunum fyrir forgangshópa eða 12.842 kr. á mánuði sem jafngildir 141.262 kr. á ári.“