Las á Facebook samanburð á verði hótela á Íslandi og í Barcelona. Íslandi í óhag. Sá sem skrifaði var misboðið og hann fann að „væli“ ferðaþjónustunnar vegna hækkunar á virðisaukaskatti.
Jæja, maðurinn pantaði tveggja manna herbergi á fínu fjögurra stjörnu hóteli í Barcelona í sjö nætur um miðjan júlí í sumar. Vikudvöl þar kostaði, að því er fram kemur, 86 þúsund krónur.
Að því verki loknu kannaði skrifarinn verð á fjórum hótelum á Íslandi.
Þau voru langtum dýrari en hótelið í Barcelona.
Hótel Selfoss var ódýrast. Þar kostar vikudvöl í tveggja manna herbergi 177.329, að því er sagt er. Næst kom Hótel Edda á Ísafirði, 1188.447 krónur, þá Hótel Fram í Grundarfirði, 194.299 og loks Hótel Óðinsvé í Reykjavík, 272.285.
Ef þetta er allt rétt kostar hótelherbergið í Barcelona vel innan við þriðjung þess sem það kostar við Óðinstorg í Reykjavík. Fullyrt er að hótelið í Eixamplehverfinu í Barcelona þoli fullkomlega samanburð við íslensku hótelin. „Það er jafnvel hægt að fá létta máltíð í Barcelona fyrir verð á einum kaffibolla í Reykjavík,“ segir bréfritari.
Hann er með fleiri verðdæmi. Félagi hans þarf að vera níu daga í Danmörku. Hann hefur leigt sér bíl hjá Europcar, Mishubishi Lancer, og kostar það 24.133 krónur. Gerður vara samanburður á verði hjá sömu bílaleigu hér á landi. Þar var hægt að leigja Volkswagen Golf. Sá hefði kostað 80 þúsund krónur. Meira en þrefalt dýrari hér en í Danmörku.
Eitt verður að taka tillit til. Hér á landi búa ferðaþjónustufyrirtæki við margfalt hærri vexti en þekkjast í öðrum löndum. Eigi að síður er ljóst að verðlag hér er fullkomlega úr takti við það sem gerist víða annarsstaðar.
Ljóst er að það má gera betur og það eru ekki bara opinberar álögur eða háir vextir að baki himinháum verðskrám á Íslandi. Alls ekki.
Sigurjón M. Egilsson.