Oddný Eir Ævarsdóttir er ein þeirra sem hlýtur Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins í ár. Verðlaununum er ætlað að veita nýjum og upprennandi höfundum í Evrópu viðurkenningu.
Vinningshafar þessa árs, auk Oddnýjar, eru Ben Blushi (Albaníu), Milen Ruskov (Búlgaríu), Jan Němec (Tékklandi), Makis Tsitas (Grikklandi), Janis Jonevs (Lettlandi), Armin Öhri, (Liechtenstein), Pierre J. Mejlak (Möltu), Ognjen Spahić (Svartfjallalandi), Marente de Moor (Hollandi), Uglješa Šajtinac (Serbíu), Birgül Oğuz (Tyrklandi) og Evie Wyld (Bretlandi).
Á vef Bókmenntaborgarinnar má sjá að Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins (EUPL) standa þeim löndum opin sem eru þátttakendur í Skapandi Evrópu, sem er fjármögnunaráætlun ESB vegna hinna skapandi- og menningarlegu greina. Á hverju ári sjá landsdómnefndir frá einum þriðja af þátttökulöndunum – 13 að þessu sinni – um að útnefna vinningshöfundana.
Hver vinninghafi fær 5.000 evrur í verðlaun. Að auki fá þeir aukna kynningu og athygli á alþjóðlegum vettvangi. Útgefendur þeirra eru hvattir til þess að sækja um ESB styrki til þess að láta þýða vinningsbækurnar yfir á önnur tungumál og ná þannig til nýrra markaðssvæða. Frá því að verðlaununum var hleypt af stokkunum árið 2009 hefur ESB útvegað fjármagn til þýðinga á bókum 56 (af 59) EUPL vinningshafa, á 20 mismunandi evrópsk tungumál. Útkoman er þannig alls 203 þýðingar. Vinningshafarnir njóta þess einnig að þeim býðst betri sýnileiki á öllum helstu bókamessum Evrópu, þar á meðal messunum í Frankfurt, London, Gautaborg og á Passaporta messunni í Brussel.
Vinningshöfum þessa árs verða afhent verðlaunin við hátíðlega athöfn í Concert Noble höllinni í Brussel hinn 18. nóvember, að viðstöddum framkvæmdastjóra Evrópusambandsins um menntun og menningu, þingmönnum á Evrópuþinginu og ítölsku fulltrúunum sem nú er formennskuríki leiðtogaráðsins.