Með og á móti ályktun Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna.
Enn myndast glufa eða gjá milli Davíðs Oddssonar og hans tryggustu stuðningsmanna. Menn hafa hvatt Davíð til að leggja af, eða slá af, andstöðu sinni gegn forystu flokksins. Í Mogganum í dag skrifar góður vinur Davíðs, Jón Steinar Gunnlaugsson, þar sem hann viðrar allt aðra skoðun en Davíð hefur á Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og vilja meirihluta þess vegna þess sem er að gerast á Filippseyjum.
Davíð gefur ekki mikið fyrir Mannréttindaráðið, sem hann kallar heimsfurðuráð.
Jón Steinar: Ástæða er til að lýsa ánægju með þetta framtak Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það tilheyrir grunnreglum í réttarríkjum að stjórnvöld beiti fólk ekki refsingum nema að undangenginni málsmeðferð fyrir dómi, þar sem sakborningar hafa óskert tækifæri til að verjast ásökunum. Þessi réttindi eru núlifandi Íslendingum í blóð borin, enda snerta þau grundvallarmannréttindi borgara í hvaða ríki sem er.
Fagna skal því sem vel er gert. Ástæða er til þess nú.
Tilefni þessa framtaks eru samfelldar fréttir um að á Filippseyjum hafi stjórnvöld látið hersveitir sínar taka borgara af lífi á götum úti án dóms og laga ef grunur hefur verið uppi um fíkniefnabrot þeirra. Hefur mátt skilja að ekki hafi þurft hersveitir til, heldur hafi öðrum borgurum verið heimilað að svipta menn lífi ef slíkar sakir voru hafðar uppi.
Davíð Oddsson: „Áður var það sérstakur útsendari Gaddafis sem stjórnaði þessu Mannréttindaráði í kurteislegu samstarfi við útsendara frá Kúbu og Sádi-Arabíu. Þegar Bandaríkin treystu sér ekki lengur að sitja eða borga til þessarar starfsemi hljóp Ísland til, ullaði á Bandaríkin og tók upp merkið sem enginn annar gat hugsað sér að taka upp. Skyldi hafa farið fram umræða um þetta í ríkisstjórninni eða töldu ráðherrar að það væri elítan af orkupakkinu sem sæti þarna í þessu heimsfurðuráði og þar væri okkar öndvegi? Það var jú angi af þessum meiði sem úrskurðaði að íslenska kvótakerfið bryti mannréttindi Sameinuðu þjóðanna og fulltrúar Gadaffis og Bokassa forseta eða annarra slíkra eðalmenna voru ekki í vafa um að íslenska furðumennið með hattinn hefði hitt naglann á höfuðið í gegnum hattinn í það sinnið.“