Í Kópavogi var veðjað á Glaðheimsvæðið sem glæsilegt byggaland. Þar hafa risið margar fallegar blokkir. Nú virðist hafa komið í ljós að fólk hafi ekki munað eftir Reykjanesbrautinni. Þaðan berst mikill hávaði. Theodóra Sigurlaug Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi Viðreisnar setti inn þessa færslu:
„Smá update um Glaðheima – næsti áfangi (500 íbúðir)
Viðreisn bókaði á síðasta skipulagsráðsfundi eftirfarandi: „Bókun frá Einari Erni Þorvarðarsyni: „Í greinargerð Skipulagsstofnunar segir, um helstu neikvæðu áhrifin er snúa að nýrri byggð í Glaðheimasvæðinu, að nauðsynlegt sé að skoða frekari mótvægisaðgerðir vegna hljóðvistar og loftmengunar. Þess vegna er mikilvægt að Reykjanesbrautin verði lögð í stokk til að verja íbúðabyggð Smárans og Glaðheima.“
Á bæjarstjórnarfundi samþykkti bæjarstjórn með öllum greiddum atkvæðum þetta:
„Bæjarstjórn Kópavogs samþykkir að efnt verði til opinnar hugmyndasamkeppni á útfærslu Reykjanesbrautar milli Skógarlindar og Arnarnesvegar. Hugmyndin skal taka tillit til allra ferðamáta og fela í sér útfærslu um bætta hljóðvist og hvort mögulegt sé að þétta byggð við og yfir brautina með stokkalausnum án þess að skerða umferðarflæði við verslun og þjónustu í Smáranum. Samkeppnin skal unnin í samstarfi við Arkitektafélag Íslands og Verkfræðingafélag Íslands.“
Við erum sátt!“