- Advertisement -

Óásættanlegt að sveitarfélög þrengi ólöglega að réttindum fatlaðs fólks

Aðsend grein:

Málefnahópar Öryrkjabandalags Íslands um húsnæðismál og sjálfstætt líf senda frá sér eftirfarandi ályktun.


Alvarlegar athugasemdir eru gerðar við stöðu fatlaðs fólks undir 67 ára aldri sem er vistað gegn vilja sínum á hjúkrunarheimilum eða sjúkrahúsum.

  • Sveitarfélög þurfa að fylgja lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 (hér eftir vísað í lög nr 38/2018) sem samþykkt voru fyrir tveimur árum, en ekki sveigja þau til eftir eigin geðþótta og beina fötluðu fólki inn á stofnanir.  
  • Stjórnvöld verða að stöðva kvótasetningu og tímatakmarkanir á þjónustu sem veitir fötluðu fólki sjálfstæði og reisn svo sem NPA samninga eða aukna þjónustu heim.
Þú gætir haft áhuga á þessum

Í dag eru 147 einstaklingar undir 67 ára á hjúkrunarheimilum.


Í dag eru 147 einstaklingar undir 67 ára á hjúkrunarheimilum, samkvæmt tölum frá Landlækni. Af þeim eru 52 einstaklingar á aldrinum 25 -59 ára sem bendir til þess að þetta sé viðvarandi og alvarlegt vandamál. Hjúkrunarheimili eru hugsuð fyrir eldri borgara og henta yngra fólki afar illa auk þess sem stefnt hefur verið að því opinberlega að afstofnanavæða búsetu fatlaðs fólks.  

Við innlögn á hjúkrunarheimili og aðrar sjúkrastofnanir má gera ráð fyrir því að sjálfstæði, mannréttindum og lífsgæðum einstaklings sé fórnað. Í nýlegu áliti Umboðsmanns Alþingis (nr. 9897/2018) er að finna gott dæmi um þetta. Þar er staðfest að stjórnvöld hafi ekki virt sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs einstaklings og að dvöl á hjúkrunarheimili geti takmarkað persónufrelsiathafnafrelsi og friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu með ýmsum hætti.  


Við höfum vitneskju um að sveitarfélög  og sjúkrastofnanir beini fólki markvisst inn á hjúkrunarheimili í stað þess að standa við sínar skuldbindingar og veita fötluðu fólki aukna þjónustu heim eða NPA samninga. Svo virðist sem að fólki sé ráðið frá því að sækja um NPA þjónustu og þess vegna verða biðlistar ekki lengri en þeir þó eru. Afleiðingin verður þá sú að minni yfirsýn er yfir þörfina. Þá virðist skorta fjölbreyttari úrræði sem og framtíðarsýn og framtíðarskipulag í málefnum fatlaðra þegar kemur að stoðþjónustu og húsnæðisöryggi. 

Samningurinn segir að fötluðu fólki skuli tryggð mannleg reisn, sjálfræði og sjálfstæði. 

Í dag býr fjöldi fatlaðs fólks við þessar aðstæður auk þess sem vitað er um einstaklinga sem hafa þurft að dvelja langdvölum gegn vilja sínum inn á sjúkrahúsi í bið eftir plássi á hjúkrunarheimili og verið synjað um aukna umönnun heima,  ekki kynnt NPA þjónusta eða hún tengd kvóta eða tímatakmörkunum. Samkvæmt tölulegum upplýsingum frá LSH eru núna sex einstaklingar undir 67 ára aldri í innlögn að bíða eftir plássi á hjúkrunarheimili vegna skorts á heimaþjónustu eða NPA og allir verið yfir 100 daga á spítalanum og allt upp í 600 daga. Hér er átt við árafjölda án heimilis en mörg hjúkrunarheimili synja yngra fólki einnig ítrekað um þjónustu.

Í lögum nr. 38/2018 kemur skýrt fram að fatlað fólk eigi rétt á bestu þjónustu sem unnt er að veita til að koma til móts við þarfir þess. Einnig segir að þjónustan skuli fela í sér nauðsynlegan stuðning svo fatlað fólk geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og lifað sjálfstæðu lífi á eigin forsendum. Lög nr. 38/2018 kveða á um að farið skuli eftir ákvæðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks við framkvæmd þeirra. Samningurinn segir að fötluðu fólki skuli tryggð mannleg reisn, sjálfræði og sjálfstæði. Þá kveða lögin á um að fötluðu fólki skuli standa til boða þjónusta sem er nauðsynleg til þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar og komið sé í veg fyrir félagslega einangrun þess. Í þessu felst meðal annars réttur til: sjálfstæðs heimilishalds; samfélagslegrar þátttöku; menntunar og atvinnu; félagslífs, tómstunda- og menningarlífs og fjölskyldulífs. Þannig veita lög nr. 38/2018fötluðu fólki tækifæri til að lifa innihaldsríku lífi og taka þátt í samfélaginu til jafns við aðra.

Við krefjumst þess að sveitarfélög geri ekki fatlað fólk að bitbeini sínu um aukið fjármagn frá ríkinu heldur standi við sínar skuldbindingar og fylgi settum lögum. Það er með öllu óásættanlegt að sveitarfélögin þrengi að réttindum fatlaðs fólks með ólögmætum hætti. Þá skulu yfirvöld fjölga úrræðum og sveigjanleika svo fatlað fólk geti átt sitt heima með sömu reisn og aðrir.  Stofnanavæðing gegn vilja fatlaðs fólks er svartur blettur á íslensku samfélagi sem á að heyra fortíðinni til. 

Höfundar eru í Málefnahópum Öryrkjabandalags Íslands um húsnæðismál og sjálfstætt líf.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: