Þetta mál lesa á vef Neytendasamtakanna, ns.is:
Neytendasamtökin vara við nýju útspili smálánafyrirtækis tengdu Kredia og Ecommerce 2020. Þannig býður fyrirtækið nú lántökum uppá að fresta afborgun á láni um 30 daga. Sá hængur er á að frestunin kostar lántaka 6.000 kr. Sé greitt fyrir frestun á láni að upphæð 20.000 kr. (eins og samtökin hafa dæmi um) þýðir það árlega hlutfallstölu kostnaðar uppá 360%, en það er ríflega tífaldur leyfilegur hámarkskostnaður. Neytendasamtökin telja þetta gjald falla undir lántökukostnað og minna á að samkvæmt lögum er neytanda ekki skylt að greiða lántökukostnað vegna lána sem bera hærri kostnað en heimilt er.
Neytendasamtökin hafa vart tölu yfir allar þær aðferðir sem smálánafyrirtækin og innheimtufyrirtæki á þeirra vegum hafa beitt til að komast fram hjá lögum á undanförnum árum. Um er að ræða samfélagsmein sem hefur reynst samfélaginu dýrkeypt og fjöldi lántakenda á kröfur á hendur fyrirtækjanna. Þá er undarleg þjónkun sumra fyrirtækja, sem vilja telja sig heiðvirð, en starfa með og í þágu þessara smálánafyrirtækja.
Neytendasamtökin hafa tilkynnt þessa starfsemi til Neytendastofu, sem hefur eftirlit með smálánastarfsemi, í þeirri von að málið verði skoðað hið fyrsta og gripið verði til aðgerða tafarlaust.