Það er fyrir okkur sem stöndum utan við, oft merkilegt að heyra rök fólks sem á í deilum og okkur er jafnvel lífsins ómögulegt að skilja, hvers vegna er deilt.
Sú staða er í Kópavogi. Á kosninganótt átti Ármann bæjarstjóri vart orð til að lýsa gleði sinni og reiknaði með að ljúka við að mynda nýjan meirihluta hið snarasta. Meirihlutinn hélt velli. Eða það hélt Ármann.
Theodóra S. Þorsteinsdóttir var enn í bæjarstjórn en einmitt hún hafði myndað meirihluta með Ármanni 2014. Þá var Theodóra kjörin, við annan mann, í nafni Bjartrar framtíðar. Nú var hún kjörin, ásamt Einari okkar Þorvarðarsyni, til setu í bæjarstjórn. En þá undir nafni BF Viðreisn, en BF stendur fyrir Bjarta framtíð.
Þá standa upp þrír af fimm bæjarfulltrúum og hafna að vinna með Theodóru þar sem hún er ekki lengur kjörin til setu í bæjarstjórn í nafni Bjartrar framtíðar. Þar sem nafni framboðsins hafði verið breytt segir sjálfstæðistríóið að það hafi breytt öllu og meirihlutinn hafi fallið.
Fullkomin pattstaða er komin upp meðal Sjálfstæðismanna í Kópavogi og það er að virðist út af ótrúlegum tittlingaskít.
Fulltrúar allra annarra flokka í bæjarstjórn hljóta að nota helgina og mynda meirihluta án deilandi Sjálfstæðismanna.
Í lokin er gott að rifja upp söguna sem er örugglega Björgvins Halldórssonar. Hann á að hafa hitt Herbert Guðmundsson sem var í nýjum jakkafötum. Bó á að hafa sagt: „Ný föt, sama röddin.“ Í Kópavogi er sagt: Nýtt nafn, sama konan.
-sme