Valdimar Össurarson, formaður Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna, skrifar eftirtektarverða grein í Moggann í dag. Þar segir til dæmis:
„Hver skyldi vera ástæðan? Augljósasta skýringin er hagsmunagæsla sem tengist þeim gríðarmiklu fjármunum sem veittir er úr ríkissjóði í nafni nýsköpunarmála. Stórir aðilar hafa komið sér vel fyrir við þessa „kjötkatla“. Þessir aðilar eiga góð ítök í stjórnmálaflokkum og vilja ógjarnan að aðrir en þeir nái að hafa áhrif. Þessir „útvöldu“ aðilar koma berlega í ljós þegar skoðuð er stjórnarskipan stofnana og skipan ráðherra og Alþingis í nefndir og ráð sem tengjast nýsköpun. Þar eru áberandi fulltrúar Samtaka iðnaðarins, sem lengi hafa drottnað yfir nýsköpunarmálum landsins ásamt Samtökum atvinnulífsins. Þar eru fulltrúar háskólasamfélagsins og greina innan þess; fulltrúar ráðuneyta og stórfyrirtækja; en ekki einn einasti fulltrúi þeirrar undirstöðu nýsköpunar sem stjórnvöld telja hugvitsfólk vera. Nefndir og ráð nýsköpunarumhverfisins eru fleiri en hér er rúm til að telja upp; allt frá hinu fjölskipaða „vísinda- og tækniráði“ til stjórna og ráða samkeppnissjóða og tímabundinna nefnda á vegum ráðherra, t.d. um mótun nýsköpunarstefnu. Undantekningarlaust er hugvitsfólk sniðgengið.“
Það skyldi þó ekki vera. Enn og aftur ráða tengsl við stjórnmálaflokkanna meiru en annað.
Það er plagsiður að ráðast persónulega gegn gagnrýnendum.
„Hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar“. Svo segir réttilega í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Sami boðskapur er síendurtekinn í allri orðræðu flokka og þingmanna.
„Stjórnvöld vinna hins vegar alls ekki samræmi við þetta,“ skrifar Valdimar. Hann á ekki bara við núverandi ríkisstjórn. „Heldur er hér um langvarandi fordóma að ræða sem orðnir eru rótgróin meinsemd í stjórnkerfinu.“
Skoðum skrif Valdimars ögn betur:
„Nú vill ráðherra nýsköpunar gera gagngerar breytingar á stuðningsumhverfi nýsköpunar og m.a. skipta út Nýsköpunarmiðstöð Íslands fyrir einkahlutafélag sem greinilega er liður í einkavæðingu þessa mikilvæga hluta stuðningsumhverfisins. Þar leggur ráðherra enn á ný til að gengið verði framhjá hagsmunasamtökum hugvitsfólks, og í ofanálag að ekki verði sinnt mikilvægri ráðgjafarþjónustu við frumkvöðla á byrjunarstigi sem NMÍ á að sinna að núgildandi lögum.
Í stjórnkerfum sem einkennast af slíkri hagsmunagæslu er það plagsiður að ráðast persónulega gegn gagnrýnendum. Því höfum við óspart fengið að kynnast sem beitt höfum okkur fyrir úrbótum um málefni hugvitsfólks og frumkvöðla. Allt er gert til að þagga niður í okkur; t.d. njóta verkefni okkar ekki sanngjarns mats í samkeppnissjóðum. Um þær aðferðir mun ég síðar fjalla.“
Þið sem eruð áskrifendur að Mogganum, endilega lesið alla grein Valdimars.