- Advertisement -

Nýr varaformaður Sjálfstæðisflokks gerir lítið úr samþykkt landsfundar

„Þessi prósentutala af vergri landsframleiðslu í opinber útgjöld er eitthvað markmið í ályktun,“ sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra og nýr varaformaður Sjálfstæðisflokksins á Alþingi, daginn eftir að hún tók við hinu nýja embætti.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, leitaði skýringa hjá Þórdísi Kolbrúnu.

„Ég beini fyrirspurn minni til nýkjörins varaformanns Sjálfstæðisflokksins, en um leið óska ég henni til hamingju með kjörið. Á þessum landsfundi Sjálfstæðisflokksins áttu sér stað mjög stór pólitísk tíðindi. Í ályktun flokksins segir, með leyfi forseta:

„Árið 2016 námu opinber útgjöld 45% af landsframleiðslu.“

Síðan segir í ályktuninni, og í því liggja tíðindin:

„Stefnt skal að því að útgjöld hins opinbera verði ekki hærri en 35% af landsframleiðslu.“

Hvað þýða þessar tölur, ágæti þingheimur? Að skera niður opinber útgjöld um 10 prósentustig af landsframleiðslu eins og Sjálfstæðisflokkur boðar núna þýðir niðurskurð upp á 260 milljarða króna,“sagði hann og hélt áfram.

„Annar forystuflokkurinn í þessari ríkisstjórn vill skera niður opinbera þjónustu um 260 milljarða kr. á næstu árum á sama tíma og þessi flokkur, og reyndar Vinstri græn einnig, segir ítrekað við þjóðina að hér eigi að ráðast í umfangsmikla innviðauppbyggingu, menntasókn og björgunarleiðangur heilbrigðiskerfisins. Hér er hins vegar verið að boða blóðugan niðurskurð af slíkri stærðargráðu að ég hef aldrei séð annað eins, ekki einu sinni þegar við vorum að vinna okkur upp úr hruninu.“

Þórdís Kolbrún benti á: „Allt annað í ályktun Sjálfstæðisflokksins gengur út á það að gera íslenskt samfélag sterkara og betra og við vitum öll að við gerum það með góðu og öflugu menntakerfi, góðu heilbrigðiskerfi, sem er opið fyrir alla óháð efnahag.“

„Hér er talað eins og ályktanir Sjálfstæðisflokksins séu meira til heimabrúks, svona málfundaræfingar og innstæðulausar með öllu,“ sagði Ágúst Ólafur. „Auðvitað eru 260 milljarða niðurskurður blóðugur niðurskurður. En við fáum engin svör. Hvernig ætlar þessi flokkur, forystuflokkur í þessari ríkisstjórn, að ná þessu fram? Svo skulum við ekki gleyma því að Sjálfstæðisflokkurinn lofaði einn flokka hundrað milljarða kr. innviðauppbyggingu. Núna er hann að boða 260 milljarða kr. niðurskurð.“

Þórdís Kolbrún hélt uppi vörnum. „Svo langar mig að koma því hér líka á framfæri að útgjöld ríkissjóðs aukast um 56 milljarða milli fjárlagafrumvarpa 2017 og 2018, sem eru 7,4%. Mesta aukningin er til málefna aldraðra og sjúkrahúsþjónustu, og málefna örorku og fatlaðra. Við erum hér með stjórnarsáttmála. Við erum að vinna góða vinnu. Stefnumörkun Sjálfstæðisflokksins birtist eins og áður sagði í fjármálaáætlun og í störfum Sjálfstæðisflokksins í núverandi ríkisstjórn. Þar eru verkefnin á þá leið að gera Ísland betra. Það er gert með því að innviðir landsins verði mjög öflugir. Að því er unnið.“

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: