Nýr „sjálfstæðisflokkur“ í undirbúningi
Styrmir Gunnarsson er einn helsti gluggi okkar hinna inn í átökin í Sjálfstæðisflokki. Styrmi er mikið í mun að forysta flokksins stigi niður og hefja samtal við ósátt fólk í flokknum. Hann upplýsir í Moggagrein dagsins að rætt sé um stofnun nýs flokks.
„Eins og gjarnan vill verða, þegar ágreiningur kemur upp í stjórnmálaflokkum, eru þeir til sem vilja afgreiða málin á skjótan hátt með útgöngu og nýrri flokksstofnun. Slíkar raddir eru uppi nú. Augljóst er að ef Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði aftur mundu þau flokksbrot verða af svipaðri stærð og Viðreisn og áhrif flokksins á framgang þjóðmála þá orðin lítil,“ skrifar Styrmir.
„Þetta sjá auðvitað allir og þess vegna eru aðrir sem segja: látum fyrst reyna á hvort hægt er að rétta stefnuna af með umræðum innan flokks. Það eru umræður af þessu tagi sem eru framundan innan Sjálfstæðisflokksins. Og þá kemur til kasta hóps, sem gegnir mikilvægara hlutverki en flestir aðrir í slíkum umræðum en það er hin kjörna forystusveit flokksins,“ bætir hann við.
Og svo nokkur orð til forystu flokksins: „Hún á tveggja kosta völ og getur sagt: við erum búin að afgreiða málið á þingi og snúum okkur því að öðru. Sú leið kann ekki góðri lukku að stýra. Hin leiðin er sú að taka upp viðræður við andstæðinga orkupakkans og leita leiða til þess að sameina þessar fylkingar á ný.“