Nýr samningur á milli HHÍ og HÍ
Undirritun samnings á milli HHÍ og HÍ um starfsemi Vísindavefsins
Nýlega var undirritaður samningur um áframhaldandi stuðning Happdrættis Háskóla Íslands og Háskóla Íslands við Vísindavef HÍ.
Frá árinu 2000 hafa vísinda- og fræðimenn Háskóla Íslands miðlað vísindum til almennings með aðstoð Vísindavefsins. Aðsókn að vefnum hefur vaxið jafnt og þétt og er Vísindavefurinn nú í hópi vinsælustu vefsetra landsins. Happdrætti Háskólans og Háskóli Íslands eru aðalstyrktaraðilar Vísindavefsins og stuðningur þeirra tryggir grunnrekstur vefsins.
Vísindavefur Háskóla Íslands hefur sannað sig sem einn mikilvægasti vettvangur vísindamiðlunar fyrir fróðleiksfúsan almenning jafnt sem fræðasamfélagið.
Rúmlega 90.000 gestir heimsækja vefinn í hverjum mánuði. Ekki er óalgengt að á hverjum degi séu rúmlega 3.000 svör opnuð á Vísindavefnum og í einum mánuði getur talan nálgast 11.000 sem fer nærri heildarfjölda svara á Vísindavefnum.
Börn og unglingar eru í hópi þeirra sem spyrja Vísindavefinn flestra spurninga og á hverju ári birtir Vísindavefurinn á bilinu 300-500 svör við spurningum almennings um vísindi og fræði. Auk þess sinnir Vísindavefurinn fjölmörgum öðrum verkefnum sem tengjast vísindamiðlun, svo sem bókaútgáfu, myndbandagerð og þátttöku í Háskóla unga fólksins, Vísindasmiðjunni og Háskólalestinni.
Vísindavefurinn