Samfélag Hugmyndasamkeppni um skipulag á nýjum Miðbæ á Seltjarnarnesi hófst í byrjun nóvember og náði samkeppnin til þriggja reita: Eiðistorgs, Austurstrandar og Melhúsareits þar sem leikskólar bæjarins eru. Samkeppninni var ætlað að draga fram hugmyndir sem skapa áhugavert bæjarrými til frekari þróunar og tengja reitina betur saman sem samhangandi heild. Ætlunin var að svæðið geti byggst upp til að mæta þörf fyrir fjölbreyttari gerðir íbúðarhúsnæðis, sterkara atvinnusvæði og varðveislu þjónustu í bænum. Einnig að tekið yrði tillit til nærliggjandi þjónustu bæjarins á stofnana- og íþróttasvæðum, líkt og segir í samkeppnislýsingu.
Keppnin var með því sniði að þremur aðilum var boðið að taka þátt og skyldi ein tillaga verðlaunuð. Auk Kanon arkitekta var Hornsteinum boðin þátttaka og Trípólí arkitektum í félagi við VA arkitekta. Tvær tillögur bárust, en auk vinningstillögu Kanon arkitekta barst tillaga frá Trípólí / VA.
Dómnefnd var skipuð Sigrúnu Eddu Jónsdóttur, Guðmundi Ara Sigurjónssyni og Gesti Ólafssyni. Ritari dómnefndar var Sverrir Bollason. Dómnefndin lagði til að tillaga Kanon skyldi verðlaunuð þar sem hún leysir á farsælan hátt samtengingu allra reitanna þriggja og tengir þá vel samfélagsstofnunum með útfærslu á Nesvegi að Kirkjubraut. Hún skapar opin, skjólgóð og sólrík almenningsrými. Þá er uppbygging við Austurströnd talin áhugaverð fyrir verðandi íbúa með góðum útirýmum og hagkvæmri lausn bílastæða.
Nú þegar fyrir liggur nýtt svæðisskipulag fyrir Höfuðborgarsvæðið þar sem m.a. er fjallað um hraðvirkar almenningssamgöngur á svokallaðri Borgarlínu er Seltjarnarnes að stimpla sig inn í umræðuna með eftirtektarverðum hætti. Bæði verða stöðvar á Borgarlínunni seglar fyrir þróun byggðar en ekki síður er þróun byggðar forsenda þess að slíkar stöðvar verði til. Með þeim tillögum sem lagðar voru fram er tónninn sleginn fyrir uppbyggingu íbúða og atvinnu sem nýta tækifærin í Borgarlínunni og styðja við þá ákvörðun að byggja upp stoppistöð á Seltjarnarnesi.
Tillögurnar eru til sýnis í Bókasafni Seltjarnarness á Eiðistorgi og verða þar til áramóta. Vonast er til að báðar tillögur og sér í lagi sigurtillagan vísi veginn þegar kemur deiliskipulagsgerð á hverjum reit fyrir sig en umræður og ákvarðanir um slíkt munu væntanlega fara fram vettvangi bæjarstjórnar og nefnda hennar á næstu misserum.