Fréttir

Nýjar tillögur um eignarhald á bújörðum verða birtar innan örfárra daga

By Miðjan

August 19, 2018

Kristján Þór Júlíusson hefur boðað að innan fárra daga, sennilega um komandi mánaðamót, skili starfshópur, um endurskoðun eignarhalds á bújörðum, tillögum sínum.

Það var Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vg, sem spurði ráðherrann og hann hefur svarað henni.

„Formaður starfshópsins er frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, aðrir nefndarmenn eru frá Bændasamtökunum, dómsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Í skipunarbréfinu kemur fram að starfshópnum er ætlað að fara yfir þær takmarkanir sem unnt er að mæla fyrir um í ákvæðum ábúðar- og jarðalaga. Hópnum er ætlað að leggja mat á takmarkanir sem er að finna í löggjöf nágrannalanda Íslands eins og Noregs, Danmerkur og Möltu og rúmast innan marka 40. gr. EES-samningsins. Starfshópnum er einnig ætlað að leggja mat á það hvaða takmarkanir koma helst til greina hér á landi til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins. Einnig er hópnum ætlað að gera tillögu til ráðherra um nauðsynlegar breytingar á lögum í samræmi við framangreint,“ segir í svari ráðherra sem og að tillagna sé að vænta, ekki síðar en um mánaðamót.