Tekist er á um innan borgarstjórnar hvort leyfa eigi byggingu risahúss í Elliðaárdal. Sjálfstæðisflokkurinn vill almenna kosningu um málið. Til þess hefur flokkurinn sá ekki skipað sér í fremstu röð þegar kemur að því að virða vilja almennings.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, sem er oddviti Pírata í borgarstjórn, getur ekki hugsað sér að fólkið verði spurt. Í Fréttablaðinu í dag segir hún:
„Ég er orðin þreytt á því að minnihlutinn, þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn, sé að draga fram og misnota hugmyndir um íbúalýðræði þegar þeir vilja ekki einu sinni hlusta á niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. Að draga fram svona hálfkákstillögur um íbúakosningu þegar það hentar þeim.“
Er nema von að fólk hristi höfuð sitt. Nú segist Sjálfstæðisflokkur vilja spyrja fólkið en Píratar ekki.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalista, er spurð álits í Fréttablaðinu. Svar hennar er afar skýrt:
„Það er talað um að þetta eigi að vera græn uppbygging. Þarna er grænt svæði fyrir þannig að ég skil ekki hvers vegna það þurfi að heimila uppbyggingu á atvinnustarfsemi í svona fallegri náttúruperlu,“ segir Sanna. „Það er talað um að þetta eigi að vera í útjaðri Elliðaárdalsins, en þegar ég skoða myndir af þessu þá er þetta í Elliðaárdalnum í mínum huga.“