Fréttir

Nýi spítalinn klár 2024

By Miðjan

April 26, 2018

Útboð jarðvinnu við nýjan meðferðarkjarna nýs Landspítala við Hringbraut hefur verið auglýst og framkvæmdir munu hefjast í sumar. Meðferðarkjarninn er stærsta bygging framkvæmdarinnar og mun gjörbreyta allri aðstöðu fyrir sjúklinga, starfsfólk og aðra sem tengjast starfsemi sjúkrahússins.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir útboðið risastóran og langþráðan áfanga í uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut: „Nú styttist í að draumur verði að veruleika þegar við sjáum verklegar framkvæmdir hefjast við þennan stóra og mikilvæga hluta Hringbrautarverkefnisins. Gangi áætlanir eftir lýkur byggingu spítalans árið 2024.“

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem nú er til umfjöllunar á Alþingi er gert ráð fyrir tæplega 75 milljarða króna fjárfestingu í sjúkrahússþjónustu og fer mest til byggingar nýs Landspítala við Hringbraut. Framkvæmdir við byggingu meðferðarkjarnans hefjast á þessu ári en meginþungi framkvæmda verður á árunum 2020-2023.