Ólafur Sigurðsson, fyrrverandi fréttamaður, skrifar grein í Mogga dagsins. Hann endar grein sína svona:
„Afleiðingar nýfrjálshyggjunnar eru komnar í ljós. Nánast allar kenningar þeirrar stefnu hafa brugðist, segir Robert Kuttner í American Prospect 25. júní 2019.
„Kaupsýslu hefur verið ríkulega launað, skattar verið lækkaðir, eftirlit með viðskiptalífinu minnkað eða jafnvel verið einkavætt, með þeim árangri að misskipting auðs hefur vaxið stórlega og dregið úr hagvexti. Heilbrigð samkeppni hefur látið undan síga fyrir hringamyndun og fjármagni beitt til að hafa áhrif á stjórnmálin til að auka samþjöppun í viðskiptalífinu.“
Hann bendir einnig á að nýfrjálshyggjan hafi haft í för með sér reglubundin efnahagshrun. Stærst varð bankahrunið 2008. Það kostaði Bandaríkin 15 trilljónir dollara og miklu meira á heimsvísu. Ríkisvaldið bjargaði bönkunum og hver borgaði reikninginn fyrir stjórnlausa bankastarfsemi? Það var fólkið í landinu, því að ríkissjóðir geta hvergi annars staðar fengið fjármagn.
Flestir vitibornir menn eru búnir að átta sig á því að nýfrjálshyggjan gæti gengið af lýðræðinu dauðu, þó að sumum geti reynst erfitt að viðurkenna það fyrir sjálfum sér. Misrétti í þjóðfélögum hefur gjarnan endað með ósköpum. Ekkert þjóðfélag á tilverurétt ef það býr ekki öllum þegnum sínum lífvænlega tilveru.“