- Advertisement -

Nýfrjálshyggjan er andmannúðarstefna

EINSTAKLINGSFRELSI HÆGRISINS ER BARA FYRIR ÞAU SEM FLJÓTA OFAN Á.

Gunnar Smári skrifar:

Starfsgetumat, sem lengi hefur verið á óskalista hagsmunasamtaka fyrirtækjaeigenda og þar með stjórnvalda, afhjúpar kjarna hægristefnunnar og nýfrjálshyggjunnar, sem meginstraumsvinstrið tók upp og styður.

Hægrið og nýfrjálshyggjan segjast berjast fyrir frelsi einstaklings og að frumkvæðisorka hans þurfi að vera drifmótor samfélagsins. Það er ekkert til sem heitir samfélag aðeins safn einstaklinga, sagði Margraet Thatcher og náði að meitla þessa hugsun í fáein orð. Við eigum engin sameiginleg markmið eða sameiginlega sýn sem við getum unnið að saman, það er ekkert sem við getum tekið höndum saman um; það er blekking. Fyrir utan að halda úti her og lögreglu til að verja kerfið. Þess utan höfum við bara okkar eigin þarfir og vilja til að verja hagsmuni okkar. Þegar við segjumst vera að vinna fyrir heildina erum við að ljúga, það er aðeins orðskrúð til að klæða okkar eigin hagsmuni í búning sem öðrum kann að hugnast betur; einmitt til að eiga meiri möguleika á ná fram okkar eigin sérhagsmunum. Við eigum því ekki að byggja upp samfélag á umræðu um sameiginlega hagsmuni, sem eru ekki til; heldur með því að gefa einstaklingnum svigrúm til að berjast fyrir sínum eigin hagsmunum. Ef við lyftum kúgun hins ímyndaða hóps af einstaklingnum mun verða til nýtt samfélag frjálsra einstaklinga, óheftrar einstaklingshyggju, sem er hið sanna eðli mannsins. Með því að draga úr valdi stjórnvalda, hins sameiginlega valds, mun ný Jerúsalem rísa upp; samfélag sem knúið er áfram af atorkusemi einstaklinganna og hamingjuleit, en ekki af hugmyndum stjórnvalda um æskilegt líf eða samfélag.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Með því að sleppa auðvaldinu lausu trúði nýfrjálshyggjan að hið raunverulega afl mannsins myndi ryðja burt hinum gamla feyskna heimi og færa velsæld yfir allt mannfélagið.

Í anda þessarar stefnu voru skattar lækkaðir á efnafólk, fjármagns- og fyrirtækjaeigendur og reglugerðir og lög aflögð sem áður höfðu hamið vald hinna ríku og lagt á þau samfélagslegar skyldur. Með því að sleppa auðvaldinu lausu trúði nýfrjálshyggjan að hið raunverulega afl mannsins myndi ryðja burt hinum gamla feyskna heimi og færa velsæld yfir allt mannfélagið. Að sumu leyti hefur þetta gerst, óheft auðvaldið hefur náð að umbreyta velferðarsamfélagi eftirstríðsáranna; brjóta niður innviði og færa grunnkerfin úr félagslegum rekstri yfir á markaðinn, af hinu lýðræðislega vettvang þar sem hver maður hefur eitt atkvæði yfir á hinn svokallaða markað þar sem hver króna hefur eitt atkvæði. Skattalækkun fyrirtækja- og fjármagnseigenda leiddi til skuldasöfnunar hins opinbera, þá skattahækkana á launafólk og almenning, niðurskurð opinberrar þjónustu og gjaldtöku innan hennar og loks sölu eigna almennings til að afla tekna til að fylla upp í gatið sem skattalækkun hinna ríku skyldu eftir. Í grunninn eru valkostirnir tveir í dag: Niðurskurður opinberrar þjónustu og áframhaldandi hrörnun innviða eða sala eigna og auðlinda almennings og einkavæðing innviða og grunnkerfa. Það gekk eftir að óheft auðvaldið umbreytti samfélaginu. Það leiddi hins vegar ekki til almennrar velsældar. Þvert á móti. Þau einu sem högnuðust voru hin ríku; auðvaldið varð ríkara og valdameira og drottnaði yfir æ stærri hluta samfélagsins. Í dag drottnar það yfir öllu, allt samfélagið lítur boðvaldi þess. Við lifum við auðræði, ekki lýðræði. Lýðræðið er ekki orðið annað en kosning annað slagið á milli stjórnmálaflokka, sem eru reknir af og þjóna auðvaldinu; flokka sem leggja mismikla áherslu á lagfæringar innan auðræðisins, en véfengja það ekki í grunninn.

Hægrið og nýfrjálshyggjan hefur enga trú á sjálfsbjargarviðleitni öryrkja.

En hvað kemur starfsgetumat þessu við? Starfsgetumat gengur út á að ekki sé hægt að treysta frumkvæðiskrafti öryrkja, að þeir þurfi skýran hvata til að verða virkir þátttakendur í samfélaginu og klára refsingar ef þeir hlýða ekki þeim kröfum sem fylgja framfærslunni. Hægrið og nýfrjálshyggjan notar engin þau rök um óbeislaðan lífskraft einstaklingsins, sem notuð eru til að fella burt kvaðir á fyrirtækja- og fjármagnseigendum, þegar kemur að hinum fátæku og valdalausu. Þá breytist hægrið og nýfrjálshyggjan er stjórnlynt stjórnvald, sem er með skýra mynd af því hvert fólk á að stefna, hvernig það á að komast þangað og hversu fljótt. Hægrið og nýfrjálshyggjan hefur enga trú á sjálfsbjargarviðleitni öryrkja, gefur ekkert fyrir frumkvæðiskraft þeirra og telur þá ófæra um að velja sjálfir sína stefnu í lífinu. Hægrið og nýfrjálshyggjan lítur á öryrkja sem sína eign, sinn eigin búfénað, sem það hefur vald yfir; að það hafi keypt þetta vald með útgreiðslu örorkulífeyris út úr ríkisvaldi auðvaldsins.

Í orði kveðnu á starfsgetumat að örva öryrkja til þátttöku í samfélaginu, eins og þessi hópur hafi ekki sjálfstæðan vilja til þess. Á sama tíma beita stjórnvöld skerðingum á öryrkja þannig að tekjur þeirra aukast sáralítið við að sinna launavinnu. Ef það væri í reynd markmiðið að auka atvinnuþátttöku öryrkja væri auðvelt að fella burt þessar skerðingar, leyfa öryrkjum að elta frumkvæði sitt og væntingar í friði, en það er ekki gert vegna þess að eitt af markmiðum hægrisins og nýfrjálshyggjunnar er að umbreyta almannatryggingum í fátækraaðstoð, með því valdi yfir fólki sem því fylgir. Af þeim sökum leggja stjórnvöld, stjórnvöld auðræðisins, höfuðáherslu á að koma á starfsgetumati sem er kerfi sem ætlað er að ráðskast með þá einstaklinga sem eru óvinnufærir, að hluta eða öllu leyti; tryggja að örorkubætur séu skilyrtar: Þú færð pening ef þú gerir eins og kerfið ætlast til. Á sama tíma eru raun-jaðarskattar öryrkja um 85%. Hægrið og nýfrjálshyggjan leggja því miklar kvaðir og þungt hegðunarmótandi kerfi á herðar öryrkja og gríðarháa jaðarskatta á sama tíma og ekki þykir forsvaranlegt að leggja á auðlegðar- eða hátekjuskatta á hin ríku, helst ekki umfram 20% jaðarskatt á fjármagnstekjur og 47% á launatekjur; og öllum samfélagslegum kvöðum er létt af fyrirtækja- og fjármagnseigendum.

Hægrið og nýfrjálshyggjan boðar frelsi fyrir hin betur settu en aukið helsi fyrir hin kúguðu, fátæku og bjargarlausu.

Hægrið og nýfrjálshyggjan á aðeins við hin ríku, þau sem fljóta ofan á, þegar rætt er um frelsi einstaklingsins, verðmæti hans og frumkvæðisafl. Um aðra gilda aðrar reglur. Hægrið og nýfrjálshyggjan boðar frelsi fyrir hin betur settu en aukið helsi fyrir hin kúguðu, fátæku og bjargarlausu.

Hægrið og nýfrjálshyggjan boðar því ekki frelsi fyrir almenning, og allra síst hin fátæku, kúguðu og valdalausu. Það gerir hins vegar sósíalisminn. Sósíalisminn boðar frelsi 99 prósentanna, að samfélagið verði byggt upp samkvæmt hagsmunum þeirra, vonum og væntingum; að frumkvæðiskraftur allra og lífsvilji sé varinn og að sameiginlegri hagsmunir fjöldans byggi upp samfélagið á sama tíma og hver einstaklingur fái frelsi og aðstöðu til að móta sitt líf innan þess.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: