- Advertisement -

Nýfrjálshyggja og síðan fasismi

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.

Frá Hruni og dauða nýfrjálshyggjunnar hafa verið skrifaðar margar ritgerðir og bækur um hvernig það hafi getað gerst að fyrrum vinstriflokkar framkvæmdu margt af stefnu nýfrjálshyggjunnar, þótt sú hugmyndafræði hafi komið frá hægri og verið harðast haldið fram af hægrimönnum. Ástæðan er að nýfrjálshyggjan sigraði og varð nýr samfélagssáttmáli, tók við af samfélagssáttmála eftirstríðsáranna um aukinn jöfnuð, verkferðarkerfi, völd verkalýðshreyfingar og almenna velsæld. Innan sáttmála nýfrjálshyggjunnar skipti ekki svo miklu máli hver var við völd; öll stjórnmál voru sveigð að hinum nýja samfélagssáttmála og hlutverk þeirra varð að framkalla nýfrjálshyggjuhugmyndir á öllum sviðum þjóðlífsins; lækka skatta á hin ríku, draga úr völdum almennings í almannafélögum og á hinum lýðræðislega vettvangi, selja auðvaldinu eignir almennings, veikja velferð og markaðsvæða öll svið mannlegs lífs.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ekki bara í sigri systurflokks Sjálfstæðisflokksins í Póllandi, Lög og réttlæti, í nýafstöðnum kosningum.

Okei, en af hverju er ég að fara með þessi almæltu tíðindi? Það er vegna þess að nýr samfélagssáttmáli er að verða til, einhver útgáfa af fasisma sem ver þann auð og þau völd sem hin ríku náðu undir sig á tímabili nýfrjálshyggjunnar. Og eins og á nýfrjálshyggjutímanum þá verður ekki breytingin þannig að fasískir flokkar sigri og taki völdin; breytingin verður þannig að allir flokkar valdsins taka upp fasískar lausnir og smátt og smátt víkur virðing fyrir lýðræði og frelsi almennings til stjórnmálaþátttöku fyrir kröfu um að fólk beygi sig undir valdið og hlýði. Við sáum þetta gerast á Spáni í morgun þegar Hæstiréttur dæmdi katalónska stjórnmálamenn í fangelsi fyrir að vilja Katalóníu út úr spánska ríkjasambandinu, við sjáum þetta í ofbeldisfullri árás lögreglunnar í Bretlandi á mótmælendur innan Extinction Rebellion, við sjáum þetta í nýsettum lögum í Frakklandi sem skerða rétt almennings til mótmæla, við sjáum þetta í virðingarleysi Alþings gagnvart niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu og við sjáum þetta því miður enn víðar. Ekki bara í sigri systurflokks Sjálfstæðisflokksins í Póllandi, Lög og réttlæti, í nýafstöðnum kosningum. Auðvitað er það ömurlegt að fasískir flokkar séu að sigra kosningar víða um lönd, en það er enn kvíðvænlegra að flokkar sem í orði kveðnu telja sig höfuðandstæðinga fasismans eru að taka upp fasíska stefnu og fasísk vinnubrögð.

Þannig sigrar fasisminn, ekki með því að fasistaflokkur Bretlands nái völdum heldur með því að fasisminn, studdur af auð og völdum, tekur yfir þá flokka sem fyrir eru. Þannig gerðist það með nýfrjálshyggjuna og þannig mun það gerast með fasismann.

Nema náttúrlega þið gerið eitthvað í málunum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: