Ný heillandi delluhugmynd fæðist
Þröstur Ólafsson skrifaði:
Við sem komin erum yfir miðjan aldur þekkjum flestar þær delluhugdettur sem íslenskir karlar hafa reynt að gera að veruleika. Þær tengjast flestar landbúnaði. Þær eru svo heillandi af því að fáránleikinn er þeirra aðalsmerki. Refabúavæðingin, minkabú á hvern bæ, laxeldið í fjörum sjávarjarða, togara í hverri vík!!
Þannig mætti eflaust halda áfram. Nú las ég í Fbl að ný heillandi delluhugmynd sé að fæðast. Nú á að gera Ísland að matvælalandi heimsins !! Við eigum að taka við hlutverki Miðjarðarhafslanda og Kaliforníu og framleiða grænmeti og ávexti, sem þar vaxa, sumir villtir. Sá sem talar fyrir þessu lítilræði, vill hins vegar fá niðurgreidda, ódýra orku. Þetta segir hann þrátt fyrir 3. orkupakkann. En hann taldi samþykkt hans upphaf að endi allra garðyrkju á Íslandi. Niðurgreidd framleiðsla á heimsmarkað líkt og lambakjötið.
Þetta er stórbrotin hugmynd, sem byggir á þeirri íslensku óskhyggju að niðurgreiðsla hins opinbera sé lykill að landnámi búvara erlendis, sem er vissulega rétt. Því meira þeim mun betra. Það sé allt sem þarf – hversu óhagkvæmt og óraunhæft það kann að vera – og lenda síðan út í skurði.