- Advertisement -

Ný framboð líklegust til að draga til sín fylgi

Sigrar og töp í kosningarbaráttu.

Sigmundur Davíð er kóngurinn efir Hrun.

Sigmundur tók við Framsókn í sárum eftir Hrun og tókst að rétta flokkinn nokkuð við.

Gunnar Smári skrifar:

Nú þegar fimm mánuðir eru til kosninga er eðlilegt að fólk velti fyrir sér hversu mikið er að marka skoðanakannanir, er líklegt að niðurstöður kannana þessar vikurnar segi fyrir um úrslit kosninganna í haust? Hversu mikil teygja er í kosningabaráttunni síðustu fimm mánuðina?

Þú gætir haft áhuga á þessum

…og áttundi hver kjósandi færði sig til Framsóknar.

Við skulum skoða þá flokka sem hafa frá Hruni náð að auka fylgi sitt mest síðustu fimm mánuðina fyrir kosningar. Við miðum við kannanir MMR.

1. Framsóknarflokkurinn 2013, úr 12,0% í 24,4%, +12,4 prósentustig Dómur EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu skömmu fyrir kosningar sneri við gengi Framsóknarflokksins undir stjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, dómurinn var I-told-you-so-móment fyrir Sigmund og áttundi hver kjósandi færði sig til Framsóknar.

2. Miðflokkurinn 2017, úr engu í 10,9%, +10,9 prósentustig Sigmundur Davíð er með gull og silfur á þessum lista, hann er óumdeildur konungur kosningabaráttu eftir Hrun. Með framboði Miðflokksins skömmu fyrir kosningar 2017 náði hann ekki bara öðru sætinu á þessum lista heldur sló met í fylgi nýs framboðs í fyrstu kosningunum á lýðveldistímanum, sló naumlega út eldra met Alberts Guðmundssonar og Borgaraflokksins frá 1987.

3. Viðreisn 2016, úr engu í 10,5%, +10,5 prósentustig Aðdragandinn að stofnun Viðreisnar var reyndar óvenjulangur miðað við ný framboð, en formleg tilkynning um framboð kom ekki fram fyrr en þegar rétt tæpir fimm mánuðir voru til kosninga. Þá mældist flokkurinn með 7,2% svo batinn á síðustu tæpu fimm mánuðunum var ekki meiri en 3,3 prósentustig.

Píratar rétt sluppu inn…

4. Borgarahreyfingin 2009, úr engu í 7,2%, +7,2 prósentustig Borgarahreyfingin varð til sem framboð á nokkrum vikum og náði góðri kosningu í þessum kosningum, sem voru litaðar af búsáhaldabyltingunni.

5. Framsóknarflokkurinn 2009, úr 9,2% í 14,8%, +5,6 prósentustig Aftur er Sigmundur Davíð mættur á þennan lista, bætir hér 5. sætinu við 1. og 2. sætið. Sigmundur tók við Framsókn í sárum eftir Hrun og tókst að rétta flokkinn nokkuð við.

6. Píratar 2013, úr engu í 5,2%, +5,2 prósentustig Fjórða nýja framboðið á þessum lista sem ekki var til fimm mánuðum fyrir kosningar en náði inn á þing. Píratar rétt sluppu inn, höfðu mælst með 7,5% hálfum mánuði fyrir kosningar, misstu nokkuð flugið síðustu dagana fyrir kosningar en rétt sluppu.

7. Sjálfstæðisflokkurinn 2016, úr 24,9% í 29,0%, +4,1 prósentustig Sjálfstæðisflokkurinn mældist með undir 20% fylgi í fyrsta skipti í sögunni eftir birtingu Panamaskjalanna, þar sem formaðurinn var á lista. Á meðan birting skjalanna reyndust Framsóknarflokknum dýr, þá náði Sjálfstæðisflokkurinn að jafna sig og bætti við sig nokkru fylgi frá síðustu kosningum þegar upp var staðið.

8. Flokkur fólksins 2017, úr 3,2% í 6,9%, +3,7 prósentustig Flokkur fólksins hafði boðið fram ári áður og mældist með um 3% fylgi í könnunum, en reis svo yfir 9% um sumarið en lækkaði svo jafnt og þétt niður fyrir 5% en reif sig svo upp, að sumra áliti vegna frammistöðu Ingu Sæland í kappræðum formannanna kvöldið fyrir kjördag, og náði inn fjórum þingmönnum, hverjir tveir hafa yfirgefið flokkinn.

…sem óprúttnir menn náðu til sín og eyddu í reisu á ólympíuleikana í Ríó.

9. Flokkur fólksins 2016, úr engu í 3,5%, +3,5 prósentustig Inga Sæland mætt aftur, í fimmta sæti nýrra framboða en ekki með nægt fylgi til að tryggja þingmenn.

10. Flokkur heimilanna 2013, úr engu í 3,0%, +3,0 prósentustig Sjötta nýja framboðið, Pétur Gunnlaugsson á Útvarpi Sögu og fleiri. Dugði þó ekki til þingsæta. Framboðið vann sér hins vegar inn ríkisstyrk með þessum árangri, sem óprúttnir menn náðu til sín og eyddu í reisu á ólympíuleikana í Ríó.

Þarna sjáið þið hversu erfitt er að ná umtalsverðri sveiflu upp á við. Af 44 framboðum hefur aðeins tíu tekist að ná uppsveiflu upp á meira en 3 prósentustig. Og ef við takið afreksfólkið Sigmund Davíð og Ingu Sæland frá þá eru þetta bara fimm framboð, þar af fjögur ný. Eftir stendur aðeins Panamavörn Bjarna Benediktssonar og Sjálfstæðisflokksins.

Næst koma svo Logi Einarsson og Samfylkingin 2017 (+2,8 prósentustig), Sigurður Ingi og Framsókn eftir Panamaskjölin 2016 (2,5 prósentustig) og Björt framtíð 2016 (+2,3 prósentustig), en flokkurinn virtist þá vera að þurrkast út af þingi.

Teygjan nær jafnt langt niður á við. Hér er listinn yfir þau framboð sem hafa tapað mestu á síðustu fimm mánuðunum fyrir kosningar.

1. Píratar 2016, úr 28,1% í 14,5%, –13,6 prósentustig Eftir að hafa ferðast með himinskautum og verið stærstir flokka í rúmt ár misstu Píratar flugið og héldu áfram að falla fram á kjördag. Næstum sjöundi hver kjósandi yfirgaf Pírata á síðustu fimm mánuðunum fyrir kosningar.

Eftir Hrun jókst fylgi VG mikið en það seig svo aftur niður…

2. Sjálfstæðisflokkurinn 2013, úr 37,7% í 26,7%, –11,0 prósentustig Sjálfstæðisflokkur Bjarna Benediktssonar vann á í stjórnarandstöðu við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur en eftir að EFTA-dómstóllinn kvað upp dóm í Icesave-málinu fluttist væn sneið af fylginu yfir á Framsóknarflokkinn stuttu fyrir kosningar.

3. Vinstri græn 2009, úr 29,0% í 21,7%, –7,3 prósentustig Eftir Hrun jókst fylgi VG mikið en það seig svo aftur niður þegar kom inn í kosningabaráttuna.

4. Samfylkingin 2013, úr 18,6% í 12,9%, –5,7 prósentustig Það hafði fjarað undan Samfylkingunni í tíð óvinsællar ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur en eftir formannaskiptin, þegar Árni Páll Árnason tók við, féll fylgið enn neðar og jafnt og þétt allt að kosningunum.

5. Píratar 2017, úr 14,1% í 9,2%, –4,9 prósentustig Píratar hafa alltaf tapað fylgi í kosningabaráttu sé miðað við skoðanakannanir og langt umfram það sem skýra má með aldurssamsetningu kjósenda flokksins, að yngra fólk mætir síður á kjörstað.

6. Vinstri græn 2017, úr 21,4% í 16,9%, –4,5 prósentustig Fylgi VG féll hratt á síðustu vikunum fyrir kosningarnar 2017. Þegar boðað var til kosninga með sex vikna fyrirvara leit út fyrir að VG og Sjálfstæðisflokkur gætu myndað tveggja flokka ríkisstjórn, og að því var stefnt; en eins og oft áður gekk VG illa að halda því fylgi út kosningabaráttuna sem safnast hafði að flokknum í stjórnarandstöðu.

…fann engin svör við fylgistapinu…

7. Sjálfstæðisflokkurinn 2009, úr 27,8% í 23,7%, –4,1 prósentustig Við Hrunið féll fylgi Sjálfstæðisflokksins í könnunum og það hélt áfram að síga allt að kosningunum 2009, hratt allra síðustu dagana eftir formannsskipti, þegar Geir H. Haarde hætti og Bjarni Benediktsson tók við.

8. Samfylkingin 2016, úr 9,1% í 5,7%, –3,4 prósentustig Þetta eru kosningarnar þar sem minnstu mátti muna að flokkurinn sem ætlaði sér að verða mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn þurrkaðist út. Flokkurinn fann engin svör við fylgistapinu, á niðurleiðinni urðu allar tilraunir til að snúa tapinu við í raun til að auka það.

9. Dögun 2017, úr 2,7% í 0,1%, –2,6 prósentustig Dögun var enn valkostur í könnunum kjörtímabilið 2016-17 en mistókst að byggja upp sómasamlegt framboð og fékk nánast ekkert fylgi í kosningunum.

10. Björt framtíð 2013, úr 10,8% í 8,2%, –2,6 prósentustig Björt framtíð reis upp undir 18% skömmu fyrir kosningar en missti flugið þegar raunveruleg kosningabarátta skall á, tapaði næstum 10 prósentustigum síðustu 6-8 vikurnar fyrir kosningar.

Framboðin sem koma næst er dauðastríð Bjartrar framtíðar 2017 (–2,2 prósentustig), Framsóknarflokkurinn eftir stofnun Miðflokks 2017 (–1,5 prósentustig) og dauðateygjur Frjálslynda flokksins 2009 (–1,3 prósentustig).

Og er hægt að spá þróuninni fram að kosningum út frá þessu?

Inga Sædal og Logi Einarsson náðu að laga stöðu flokka sinna…

Sigmundur Davíð hefur unnið mikið á í öllum kosningum þar sem hann hefur leitt baráttu síns flokks. Er það þar með sagt að hann muni gera það enn á ný? Jafnvel söluhæstu leikstjórar Hollywood búa sjaldan til fjórar metsölumyndir í röð og jafnvel bestu fótboltaþjálfurum tekst ekki að koma liði sínu í undanúrslit Meistaradeildarinnar fjögur ár í röð. Það liggur við að það megi frekar spá því að næstu kosningar verði Sigmundi erfiðar, en að honum takist enn einu sinni að draga kanínu upp úr hatti sínum.

Inga Sædal og Logi Einarsson náðu að laga stöðu flokka sinna í síðustu kosningum en sagan er ekki nógu löng til að hægt sé að leggja út frá henni. En Píratar hafa alltaf tapað fylgi í kosningabaráttunni og það er líka raunin með VG undir stjórn Katrínar Jakobsdóttur og oftast raunin með Sjálfstæðisflokk Bjarna Benediktssonar. Þorgerður Katrín vann lítillega á í einu kosningabaráttunni sem hún hefur leitt fyrir Viðreisn og Sigurði Inga hefur tekist að halda fylgi Framsóknar, en ekki auka við það.

Og svo segir sagan að ný framboð séu líklegust til að hrærar upp í kosningabaráttunni og ná árangri. Þá ber fyrst að nefna Sósíalistaflokkinn sem vænlegan kost en hann mældist með 6% í nýjustu könnun MMR og hefur ekkert nýtt grasrótarframboð mælst með svo mikið fylgi, svo langt frá kosningum. Viðreisn, sem varla er hægt að kalla grasrótarframboð, þar sem uppruna flokksins má flokka sem klofning úr Sjálfstæðisflokknum, náði 7,2% í fyrstu mælingu í miðjum Panamastormi tæpum fimm mánuðum fyrir kosningar 2016.

Sósíalistaflokkurinn er undantekning…

Önnur framboð sem tilkynnt hafa verið eru Frjálslyndi lýðræðisflokkur Guðmundar Franklín og Landsflokkur Jóhanns Sigmarssonar. Þeir mælast ekki í könnunum. Samanlagður fjöldi þeirra sem nefndu annað í síðustu könnun MMR var 1,5% og á bak við þá tölu geta verið allskyns framboð lifandi, dauð og enn ófædd. Könnunarfyrirtækin leggja lista fyrir þátttakendur með nöfnum framboða í síðustu kosningum, svo þarna getur Alþýðufylkingin, Dögun og Húmanistaflokkurinn verið saman við önnur framboð sem þátttakendur tilnefna sérstaklega. Þegar framboð liggja fyrir og hafa verið samþykkt af kjörstjórn munu könnunarfyrirtækin spyrja um þau og þá fá ný framboð raunverulega mælingu. Sósíalistaflokkurinn er undantekning en hann sprengdi þetta fyrirkomulag á kjörtímabilinu, svo margir nefndu flokkinn sem annan kost að könnunarfyrirtækin fóru að setja nafn flokksins á þátttökuseðilinn til að fá meira vit í niðurstöðum kannana; MMR fyrst en Maskína síðast.

Atkvæði til nýrra framboða og framboða sem ekki hafa átt sæti á þingi hafa verið svona í síðustu kosningum:

  • 2017: 18,1%
  • 2016: 16,2%
  • 2013: 25,2%
  • 2009: 7,8%

Í síðustu þremur kosningum hafa sjötti hver til fjórði hver kjósandi sett atkvæði sitt á ný framboð.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: