- Advertisement -

Ný forysta ASÍ hafnar starfsgetumati

Öryrkjar fagna. „Ljóst er að þessi stefnubreyting ASÍ getur haft víðtæk áhrif. Þannig hefur sambandið hingað til sett upptöku starfsgetumats og breytingar á almannatryggingakerfinu í samhengi við afnám krónu-á-móti-krónu skerðingarinnar.“

 

Alþýðusamband Íslands hefur fallið frá hugmyndum um starfsgetumat. Þetta var samþykkt á nýafstöðnu þingi ASÍ. Lögð er áhersla á að auka samstarf við Öryrkjabandalag Íslands um málefni sem varða almannatryggingakerfið og að krónu-á-móti-krónu skerðing verði afnumin strax.

Þetta kemur fram á heimasíðu Öryrkjabandalags Íslands.

ASÍ hefur haft starfsgetumatið á stefnuskrá undanfarin ár og hefur það haft áhrif á stefnu stjórnvalda. Nú segir með skýrum hætti í stefnu ASÍ um heilbrigðisþjónustu og velferðarmál: „ASÍ hafnar núverandi hugmyndum að starfsgetumati og vinni með ÖBÍ að þeirra málum.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta er mikilvæg stefnubreyting af hálfu Alþýðusambandsins og mikið fagnaðarefni.

Áður hafa stór aðildarfélög innan Alþýðusambandsins, VR og Efling – stéttarfélag, tekið undir málflutning Öryrkjabandalags Íslands í miklvægum málum. Stjórn ÖBÍ hefur sömuleiðis tekið afdráttarlausa afstöðu gegn starfsgetumati enda hefur reynslan af því í öðrum löndum verið neikvæð.

Með sama hætti leggst Alþýðusambandið alfarið gegn krónu-á-móti-krónu skerðingunni. Sambandið vill að hún verði afnumin strax og að skerðingarhlutfall í almannatryggingum verði lækkað í 30%.

Ljóst er að þessi stefnubreyting ASÍ getur haft víðtæk áhrif. Þannig hefur sambandið hingað til sett upptöku starfsgetumats og breytingar á almannatryggingakerfinu í samhengi við afnám krónu-á-móti-krónu skerðingarinnar. Ljóst er að nú er sú tenging úr sögunni hjá Alþýðusambandi Íslands. Það hlýtur að hafa áhrif á það hvert stjórnvöld hyggjast stefna í þessum efnum. Afnám krónu-á-móti-krónu skerðingarinnar er augljóst réttlætismál eins og Öryrkjabandalag Íslands hefur bent á árum saman.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: