Gunnar Smári skrifar:
Megnið af auknum útgjöldum er stofnað til svo líklegra sé að ráðherrarnir haldi völdum í flokkum sínum og ná frekar kjöri. Þetta fólk er algjörlega stjórnlaust þegar kemur að eigin stöðu, hleður í kringum sig heilu ritstjórnunum til að mæra sig, pólitískum ráðgjöfum til að meta hvernig það kemur út úr þessu eða hinu málinu, fréttinni eða viðtalinu og lætur ráðuneytin meira og minna snúast um sjálft sig og pólitíska framtíð. Síðan mokar það fé úr ríkissjóði til flokka sinna þar sem það er einrátt um ráðstöfunina, sem án undantekninga er til enn frekari upphafningar á forystunni (ekkert í almennt flokksstarf eða til virkni almennra félaga).
Við verðum að brjóta þetta kerfi niður 25. september. Sósíalistar þurfa að búa til sérstaka stefnu um hvernig færa á stjórnmálin aftur til almennings og úr höndum fámennra vinsælukrakkaklíka sem náð hafa flokkunum undir sig. Hvað á að vera í stefnunni? Lækkun launa kjörinna fulltrúa, framlög til stjórnmálaflokka beint til samtaka sem heyja raunverulega baráttu og hafa orðið undir í stjórnmálakerfinu (leigjendur, innflytjendur, atvinnulausir, aldraðir o.s.frv.), úttekt á eituráhrifum stjórnmálaflokkanna á stjórnsýsluna, slembivalin þing almennings til að fjalla um mikilvæg mál o.s.frv.
Núverandi stjórnmálakerfi er ónýtt. Það sést á þessari ríkisstjórn. Við þurfum að horfast í augu við það og móta tillögur um hvernig má byggja upp betra kerfi.