- Advertisement -

„Núna ætla ég ekki að þegja“

Við erum bara eitt mannkyn.

Sanna Magdalena Mörtudóttir:

„Fór á samstöðufund gegn nasisma og sagði nokkur orð.

Hey negri ég skeit á þig áðan, sagði unglingsstrákurinn þegar hann gekk fram hjá mér og vinkonum mínum. Við vorum að rölta fram hjá skólanum okkar og vorum sennilega 12-13 ára, og hann nokkrum árum eldri, strákur úr sama skóla og við. Ég býst við því að hann hafi verið að vísa í mig, dökku stelpuna og einhvers konar hugmyndir um óæðri samfélagsskipan fólks með dökkan húðlit sem hann líkti við saur.

Kynþáttaskiptingar ykkar standast ekki líffræðileg rök.

En ég sagði auðvitað ekki neitt, þóttist ekki taka eftir þessu, við héldum bara áfram að labba. Bara leiða þetta fram hjá sér. Þykjast ekki heyra. Ekki gefa þessu athygli. Þetta er bara einhver strákakjáni sem er sennilega að reyna að virka harður af sér fyrir vinahópinn sinn. Kannski er hann að reyna að vera töffari. Haltu bara áfram, ekki sýna að þetta trufli þig.

En núna ætla ég ekki að þegja. Núna ætla ég ekki að leiða þetta fram hjá mér. Núna ætla ég ekki að hundsa þetta. Núna segi ég stopp. Þetta er ekki í lagi. Að halda uppi útilokandi og niðrandi hugmyndafræði sem elur á sundrung er ekki í lagi. Að upphefja ákveðin hóp af fólki á grundvelli húðlitar og uppruna og tala niður aðra hópa af fólki sem falla ekki inn í þær skilgreiningar er óboðlegt og ég hafna þessari tilraun sem reynir að spúa andúð og ótta inn í samfélagið okkar.

Kynþáttaskiptingar ykkar standast ekki líffræðileg rök. Þannig að já, lesið ykkur smá til, fræðist og hættið þessu rugli. Við erum bara eitt mannkyn.

Fáfræði getur ýtt undir fordóma, sem getur leitt til haturs og slíkt er oft undanfari ofbeldis. Við verðum að bregðast við. Þó það gangi ekki upp líffræðilega að skipta fólki upp í ólíka kynþætti, þá er slíkt ákveðin menningarleg og félagsleg sköpun og ber því með sér mikinn veruleika sem mótar líf fólks á hverjum einasta degi þar sem neikvæðar hugmyndir og staðalmyndir hafa oft verið tengdar við hópa fólks og það metið út frá því hvernig það lítur út og hvaðan það kemur. Til að vinna gegn fordómum þurfum við að vera vakandi sem samfélag og benda á þegar við verðum vör við það sem er ekki í lagi. Því fyrir okkur sem þorum stundum ekki að segja eitthvað, ætlum bara að leiða þetta fram hjá okkur og þykjast ekki heyra, þá getur skipt sköpum að hafa einhvern sem getur tekið slaginn fyrir okkur og með okkur þegar við getum það ekki. Eða þegar við biðjum um hjálp. Þannig sýnum við samstöðu. Svo ég vitni í baráttumanninn, Martin Luther King, þá finnst mér þessi orð sérstaklega viðeigandi núna; það er alltaf rétti tíminn, til að gera það sem er rétt.

Það er okkar hlutverk að gæta þess að skaðleg hugmyndafræði nái ekki fótfestu og að hér skapist ekki jarðvegur fyrir hana.

Sanna Magdalena:
Frelsi fólks til að lifa óáreitt, vegna þjóðernis, litarháttar, uppruna, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar?

Í samfélaginu hefur mikið verið talað um frelsi fólks til að mega tjá sig. Jafnvel sett fram frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum um þrengingu ákvæðis um hatursoræðræðu. Ef slíkt yrði samþykkt væri ekki lengur refsivert að niðurlægja eða níða minnihlutahópa opinberlega hér á landi nema að slík tjáning þyki til þess fallinn að „hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun.“ En ég spyr hvar er línan dregin? Af hverju þarf að rýmka rétt fólks til að koma hatursfullum skilaboðum út úr sér? Á hvaða vegferð erum við þá komin sem samfélag? Sagan hefur sýnt okkur að við þurfum að setja ákveðnar reglur. Svo að frelsi fólks til að tjá sig, gangi ekki gegn mannréttindum annarra. Til þeirra sem vilja auka tjáningarfrelsið, spyr ég til baka, hvað um frelsi fólks til að lifa í öruggu samfélagi? Frelsi fólks til að lifa óáreitt, vegna þjóðernis, litarháttar, uppruna, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar? Frelsi til að labba um torg götunnar fullviss um að enginn spúi sinni útilokandi og niðrandi tjáningu yfir sér?

Brjótum niður alla múra sem útiloka fólk.

Í heimi þar sem talað er um að byggja veggi á landamærum, börn á flótta eru geymd í búrum aðskyld frá foreldrum sínum og ómannúðlegt kerfi í nafni landamæraeftirlits skilgreinir einstaklinga sem ólöglega fyrir það eitt að flýja hörmulegar aðstæður í leit að betra lífi, verðum við að segja nei.

Við verðum að hafna hugmyndafræði sem smættar manneskjur niður í ógn og dregur upp mynd af einstaklingum sem óvini vegna húðlitar, uppruna, trú, hinseginleika, eða annarrar stöðu. Við stöndum sameinuð gegn hatri. Sameinuð gegn ofbeldi. Og sameinuð gegn andúð á þeim sem hafa þurft að þola misrétti og óttast uppgang þess í samfélaginu. Með samstöðu útilokum við fordóma og sköpum gott samfélag, þar sem allir tilheyra.

Brjótum niður veggi skaðsamlegrar og útilokandi hugmyndafræði. Brjótum niður alla múra sem útiloka fólk. Og brjótum niður alla þá veggi sem standa í vegi fyrir því að hér getum við lifað í öruggu, góðu samfélagi. Það gerum við með því að fagna fjölbreytileikanum.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: