„Ég held að það sé í fyrsta skipti síðan ég kom inn á þing sem ég stend hér í þessum ræðustól og er í rúllukragabol, ekki í skyrtu og með bindi. Og hvernig skyldi standa á því? Jú, það er kuldinn sem veldur því. Það er miskalt, það blása miskaldir vindar um þetta hús. Það getur sums staðar verið heitt og sums staðar er mjög kalt. Pólitískir kaldir vindar, það gagnast lítið að fara í rúllukragabol til þess að verjast þeim en í náttúrulegum kulda verður manni hlýrra af því að vera svona klæddur heldur en í skyrtu og bindi,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson á Alþingi í dag.
„En hvers vegna segi ég þetta? Jú, það er fólk þarna úti í brunagaddi sem á í engin hús að venda. Hvernig getum við leyft okkur að vera með fólk úti í þessum kulda og hjálpa því ekki með húsaskjól? Hvernig getum við sagt við fólk klukkan tíu á morgnana: Nú ferð þú út í þennan brunagadd og svo færðu ekki að koma aftur fyrr en að kvöldi? Þetta er okkur til háborinnar skammar. Líka að við skulum vera með fólk sem þarf að hírast í bílum sínum eða í hjólhýsum í Laugardalnum. Fyrir kosningar fyrir ekki svo löngu síðan lofaði hæstv. fjármálaráðherra því hreint út að hann myndi leiðrétta skerðingar eldri borgara frá 2009. Hefur verið staðið við það? Nei. Ef við horfum til ellilífeyrisþega er lægsti ellilífeyrir 286.619 kr. fyrir skatt, heimilisuppbót 72.427 kr. og orlofs- og jólabónus 104.929 kr. Af hverju í ósköpunum erum við með orlof og jólabónus inní hjá TR þegar við getum ekki sýnt fram á það og segjum ekki frá því að hann er ekki fyrir alla? Það er stór hópur sem fær ekki krónu í jólabónus vegna þess að þeir gerðu eitt sem er ríkisstjórninni ekki að skapi, þeir borguðu í lífeyrissjóð,“ sagði hinn duglegi þingmaður Guðmundur Ingi Kristinsson.