Sigurjón Hafsteinsson, sem starfar í slökkvi- og björgunarþjónustu á Keflavíkurflugvelli, skrifar grein sem Mogginn birti í morgun.
Þar segir til dæmis þetta: „Boltinn er hjá ykkur, ríkisstjórn Íslands og atvinnurekendur, gefið rétt af góðærinu til þeirra sem sköpuðu það; góðæri sem oft er minnst á í ræðu og riti en fáir sjá í mánaðarlegu uppgjöri heimilisbókhaldsins.“
Sigurjón brýnir forystu launafólks„Nú er röðin komin að okkur, verkafólkinu, sem sköpuðum góðærið í landinu, ágætu forystumenn launþega. Vilhjálmur Birgisson, Ragnar Þór Ingólfsson, Aðalsteinn Árni Baldursson og Sólveig Anna Jónsdóttir: hræðumst ekki talsmenn elítunnar með sinn innihaldslausa áróður heldur þéttum raðir okkar enn frekar fyrir komandi (vonandi) friðsamleg átök fram undan, en verið þess minnug að ykkar umbjóðendur, þ.e.a.s. verkalýðurinn, ellilífeyrisþegar, öryrkjar, heimilin og fjölskyldurnar, ofangreindir hópar munu standa með ykkur og vera stoð ykkar og stytta. Hér gildir hið fornkveðna; einn fyrir alla og allir fyrir einn, þetta verða okkar orð og efndir í lok dags.“
Sigurjón segir svo: „Staðreyndin er nefnilega sú að bættur hagur verkalýðsins er lykill að framförum á sama hátt og ofurlaun elítunnar auka fátækt og misskiptingu.“