![](https://www.midjan.is/wp-content/uploads/2025/01/Screenshot-2025-01-23-at-11.04.48.png)
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyja:
„Stærsta björgun Íslandssögunnar- 1973 Allir í bátana.“
Í dag, 23. janúar eru rétt 52 ár liðin frá því eldgos braust út á Heimaey. Heilt byggðarlag lagðist svo gott sem af. Íbúarnir, eða um fimm þúsund einstaklingar, þurftu að yfirgefa heimili sín um miðja nótt, og mörg þeirra áttu eftir að fara undir ösku og eld. Hluti af eyjunni okkar varð hrauninu að bráð og austurbærinn sem áður var blómleg byggð varð skyndilega horfin heimur. Þessa sögu þekkja allir Íslendingar og hér í Eyjum gerum við meira en að þekkja söguna – hún er óafmáanlegur hluti af því að vera Vestmanneyingur.
Þessi stærsti viðburður í 1000 ára sögu Eyjanna er orðinn meira en hálfrar aldar gamall. Það eru því fyrir löngu komnar fram kynslóðir þar sem eldgosið er saga en ekki upplifun. Vissulega hefur margt merkilegt verið skrifað og tekið saman en sögur of margra eru enn ósagðar – og sumar verða því miður ekki lengur sagðar.
Það er því ómetanlegt afrek hjá Ingibergi Óskarssyni að freista þess að safna saman og skrásetja hverjir fóru með hvaða bát nóttina örlagaríku þegar hið einstaka björgunarafrek var unnið við að koma Eyjabúum í örugga höfn. Ekki er það síður mikilvægt hversu mikinn metnað hann hefur lagt í að safna saman myndum af öllum bátunum, auk mynda af uppbyggingunni og margs annars sem tengist gosnóttinni og lífinu fyrst eftir að snúið var aftur heim. Fyrir þetta afrek hans stöndum við Vestmanneyingar í þakkarskuld.
Mest þykir mér þó vænt um allar frásögurnar sem Ingibergur hefur náð að safna saman, því hver og einn einasti sem flýði Eyjar þessa örlagaríku nótt á sína sérstöku frásögn, allir eiga sína rödd sem má ekki glatast, má ekki gleymast. Jafnvel þau okkar sem voru of lítil til að muna atburðina sjálfa eigum minningar sem aðrir hafa sagt okkur. Frásagnir þeirra sem voru með og upplifanir þeirra eru stundum svo lifandi að manni finnst jafnvel sjálfri að maður muni – þó að það sé útilokað fyrir flest okkar svona ung!
Um leið og Vestmannaeyjabær þakkar Ingibergi fyrir eljuna við að safna saman og vera óþreytandi við að leiðrétta, ná í fleiri sögur og taka saman allt það sem þarf að varðveitast um hina örlagaríku nótt og framvinduna þá er ástæða til að þakka öllum þeim sem koma að því að setja efnið upp með þeim hætti að það nái til sem allra flestra með nútímatækni. Gögnin verða gerð aðgengileg á Heimaslóð og jafnframt varðveitt í Safnahúsinu.
Mér er ljóst að þó svo að Ingibergur hafi unnið gríðarlegt starf er enn mikið eftir, við að samræma, draga fram fleiri frásagnir og finna til fleiri myndir sem segja söguna með aðeins öðrum blæ eða annarri framvindu. Sögur af seiglu og ástríðu fyrir heimkynnunum sem var sterkari en heilt eldgos í bakgarðinum – og smám saman byggðist aftur upp það einstaka samfélag sem við þekkjum og eigum í dag.
Við þökkum fyrir það á þessum degi sem og fyrir þá vinnu sem Ingibergur Óskarsson hefur lagt á sig til að varðveita minninguna sem aldrei má gleymast.
Ég hvet bæjarbúa til að fjölmenna í Eldheima í kvöld kl. 19:30 á „Stærsta björgun Íslandssögunnar- 1973 Allir í bátana“
Grein birtist fyrst á vef Vestmannaeyjabæjar.