Norðurland skorið í tvennt
Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, fyrir hið gamla Austurlandskjrödæmi, skrifar grein í Moggann í dag. Þar segir til að mynda:
Með breyttri skipan á kosningum til Alþingis sem samþykkt var 1999 og kosið var eftir í fyrsta sinn vorið 2003 varð grundvallarbreyting á þeirri kjördæmaskipan sem gilt hafði frá árinu 1959 og byggðist í meginatriðum á sögulegri skiptingu í landsfjórðunga. Til grundvallar stærð og fjölda kjördæma kynnti meirihluti Alþingis það sjónarmið að svipuð tala þingmanna, 10-11 talsins, yrði í hverju þeirra og þáverandi þingflokkar myndu eiga þar kjörna fulltrúa í. Með breyttum kjördæmamörkum var þarna riðlað skipan sem lengi hafði gilt, einnig um samstarf sveitarfélaga. Ljóst dæmi um þetta er Norðausturkjördæmi með útmörkum frá Djúpavogi til Siglufjarðar. Með þessu var Austfirðingafjórðungur sem söguleg eining horfinn.
Undirritaður var í hópi örfárra þingmanna sem mæltu gegn þessari skipan mála. Ég gerði svofellda grein fyrir atkvæði mínu (25. mars 1999):
„Virðulegur forseti. Með þeirri stjórnarskrárbreytingu sem hér er verið að lögleiða og breyttri kjördæmaskipan í kjölfarið er verið að stíga afleitt og afdrifaríkt skref. Búin verða til þrjú risastór landsbyggðarkjördæmi þvert á hefðbundin samvinnuform fólks og byggðarlaga. Norðurland verður skorið í tvennt, Austurland svipt stöðu sem það hefur haft frá þjóðveldisöld og höfuðborgin bútuð sundur í tvö kjördæmi. Þessi breyting verður til að sundra en ekki sameina og mun veikja félagslega stöðu landsbyggðarinnar. Nær hefði verið að koma á fjórðungaskipan með lýðræðislegu heimavaldi og gera síðan landið að einu kjördæmi til Alþingis.“