Þeir hafa orðið að hætta að vinna vegna þess að 100.000 kr. vinnulaun verða 0 vegna krónu á móti krónu skerðingar og sérstaka uppbótin upp á 63.000 kr. á mánuði hverfur.
„Meðal spurninga sem við ætlum að reyna að svara er: Er það ekki ávísun á fátækt að skatta 36,94% og skerða 45% atvinnu- og lífeyristekjur eldri borgara og öryrkja eins og gert er í dag? Er eðlilegt að 60.000 kr. greiðslur til öryrkja frá lífeyrissjóðum séu skertar 100%?“
Þetta sagði Guðmundur Ingi Kristinsson á Alþingi. Hann var upphafsmaður umræðu um skerðingar eldri borgara og öryrkja.
„Ríkisstjórnin myndi græða á því að leyfa þeim eldri borgurum að vinna sem vilja og það án skerðingar. Gróðinn yrði í skatttekjum og betri heilsu þeirra sem vilja eða geta unnið. Að koma í veg fyrir vinnu hjá þeim sem vilja vinna með skerðingum og sköttum á laun þeirra er ekkert annað en fjárhagslegt ofbeldi sem bitnar á eldri borgurum eða öryrkjum. Það er fáránlegt að skerða vinnulaun. Þar eru einnig undir lífeyrissjóðslaun frá lífeyrissjóðunum sem eru ekkert annað en laun viðkomandi og vextir. Þetta er eignarupptaka af verstu gerð.“
Næst sagði Guðmundur Ingi: „Hvers vegna er það látið viðgangast hjá ríkisstjórnarflokkunum, sömu flokkum og hafa komið á hálfum lífeyrissjóðsgreiðslum frá lífeyrissjóðum og hálfum frá Tryggingastofnun ríkisins og það án allra skerðinga fyrir eldri borgara? Sá sem er með 1 milljón frá lífeyrissjóði fær 124.053 kr. á mánuði frá TR, þ.e. nákvæmlega sömu upphæð og sá sem er með 125.000 kr. frá lífeyrissjóðnum sínum. Þarna er um að ræða ótrúlega óreiðu vegna þess að ef við tökum þessa tvo einstaklinga fær sá sem hefur ekki nema 125.000 kr. frá lífeyrissjóði, sem er yfirleitt láglaunafólk eða þá konur, og vinnur hálfa á móti hálfri vinnu, útborgaðar 233.000 kr. Hinn sem er með 1 milljón frá lífeyrissjóði, hvað fær hann útborgað? Jú, hann fær útborgað 738.000 kr. og fær 124.000 kr. frá ríkinu.
Hvernig í ósköpunum er þetta hægt?“
Hann sagði að séreignarsparnaður sé ekkert annað en vextir og laun og á ekki að skerðast króna á móti krónu. „Sérstök uppbót er 63.000 kr. á mánuði og ef öryrki með 1 milljón í séreignarsparnaði tekur hana út til að borga fyrir húsnæði, lyf, mat, föt fyrir börnin sín gerir ríkisstjórnin eignarupptöku á henni í formi skatta og skerðingar. Þetta er ekki gert við nokkra aðra launþega eða eldri borgara sem eiga séreignarsparnað.“
Þeir verst settu á meðal öryrkjanna geta ekki unnið neitt. Þeir hafa orðið að hætta að vinna vegna þess að 100.000 kr. vinnulaun verða 0 vegna krónu á móti krónu skerðingar og sérstaka uppbótin upp á 63.000 kr. á mánuði hverfur.
Eru ekki allir jafnir fyrir lögum eða er í lagi að leggja veikt og slasað fólk, öryrkja, í einelti fjárhagslega á öllum sviðum vegna veikinda þeirra? Getur hæstvirtur ráðherra svarað því hvenær því ólöglega fjárhagslega ofbeldi verður hætt?“
Meira um það síðar í dag.