Neytendastofa gerir átak í snuðum
Neytendastofa hefur að undanförnu tekið eftir að ábendingum um gölluð snuð.
Flestir foreldrar líta á snuð sem ómissandi þátt í lífi barns til jafns við bleyjur og barnavagna. Að mörgu er að gæta þegar snuð eru keypt og hafa verður í huga að þeim er ætlað að vera í munni ungra barna. Það skiptir því máli að rétt sé staðið að vali og meðferð snuða til að stuðla að öryggi barnsins.
Neytendastofa hefur að undanförnu tekið eftir að ábendingum um gölluð snuð og snuddubönd hefur fjölgað. Óljóst er hvort að það sé vegna þess að framleiðslan hefur breyst eða hvort að neytendur séu duglegri að senda ábendingar til réttra aðila eins og Neytendastofu. Vegna þess var ákveðið að Neytendastofa myndi leggja áherslu á að skoða snuð og snuddubönd. Það er í samræmi við áherslur stofnunarinnar síðustu árin en þá hafa barnavörur verið skoðaðar sérstaklega.
Neytendastofa hefur í samstarfi við eftirlitsstofnanir í Evrópu farið í stórátak vegna öryggis snuða og snuddubanda. Skoðaðar hafa verið yfir 1500 tegundir af snuðum og snudduböndum og af þeim valdar yfir 200 tegundir af snuðum sem sendar voru í prófun. Markmiðið var að prófa frá öllum framleiðendum sem eru með snuð á markaði í Evrópu og fleiri en eina tegund frá hverjum. Rúmlega 1300 eintök af snuðum og snudduböndum voru send í prófun. Neytendastofa sendi bæði latex snuð og sílikon snuð. Hefðbundin snuddubönd og snuddubönd sem börn geta leikið með voru líka send til prófunar.
Á síðustu 10 árum hafa 78 tilkynningar borist í RAPEX – tilkynningakerfið varðandi snuð eða snuddubönd sem geta verið hættuleg börnum. Flestar tilkynningar um snuð voru vegna köfnunarhættu vegna smárra hluta sem losna eða að loftgöt hefur vantað. Snudduböndin sem nú eru framleidd eru styttri en áður svo ekki á lengur að vera kyrkingarhætta af þeim en aftur á móti eru að koma tilkynningar um að litlir hlutir brotni eða detti af böndunum. Á hverju ári eru skráð, í IDB sem er slysa gagnabanki í Evrópu, um 44 slys á börnum 0-4 ára, tengdum snuðum, sem eru það alvarleg að það þarf að fara með börnin á slysavarðastofu. Ekki eru öll slys skráð í IDB og mörg ríki eru með engar skráningar. Sjá tengil á IDB gagnabankann hér.
Forráðamenn geta skoðað ýmsa hluti sjálfir til að auka öryggi barnanna. Áður en snuð er sett upp í barn er til dæmis gott ráð að toga í túttuna og snuðið til að athuga hvort að hún sé heil. Snuddubönd mega ekki vera lengri en 22 cm að öðrum kosti er hætta á að bandið geti vafist um hálsinn á börnum og valdið köfnun. Fylgist einnig vel með hvort að smáir hlutir geti losnað af böndunum.
Neytendastofa vill um leið þakka þeim söluaðilum sem farið var til og tekin voru sýni hjá af snuðum og /eða snudduböndum þar sem þeir tóku allir vel í að verið væri að athuga hvort vörurnar væru í lagi.