Hér fylgja tvö ráð til að létta störfin. Það fyrra er um hvernig best er að afhýða tómata og það síðara um hvernig er best að opna kampavínsflösku, og hvernig er best að hella úr henni.
Afhýddir tómatar
Tómatar geta verið ljúffengir í uppskriftir hvers konar, sérstaklega sósur og súpur. Tómathýðið getur þó orðið til vandræða því þegar tómatar eru eldaðir rúllast það upp í litlar ræmur sem eru í besta falli seigar i sósunni eða súpunni og geta hreinlega nánast eyðilagt góða uppskrift. Það er þó ekki heiglum hent að afhýða tómata. Besta ráðið er að setja til hliðar stóra skál með ísvatni. Þá er lítið X skorið í botninn á tómötunum. Þægilegast er að vinna með þrjá til fjóra tómata í einu sem settir eru í pott af sjóðandi vatni. Teljið upp að tíu og færið tómatana úr sjóðandi pottinum yfir í skálina með ísvatninu. Þá er auðvelt að afhýða tómatana með hnífi.
Að opna og hella kampavíni
Kampavín er hátíðlegur drykkur en það er óskemmtilegt ef það freyðir út um allt þegar það er opnað og verður að tómu sulli. Þrátt fyrir að kampavínsflöskur séu opnaðar með hvelli og gusu í bíómyndum er það fjarri því rétt aðferð til að opna kampavínsflösku, eins og hvaða kampavínsbóndi sem er myndi benda á með einkennandi frönsku phuu-i!
Til að opna kampavínsflösku á hinn eina rétta hátt og hella því með stíl er best að fylgja eftirfarandi leiðbeiningum:
1: Fjarlægið vírnetið sem heldur um korktappann með því að þrýsta þumlinum á korktappann á meðan vírnetinu er snúið af. Hallið flöskunni í 45°, haldið með hnefanum um tappann, snúið flöskunni rólega og þrýstið varlega á tappann þar til hann losnar með hóflegum hvelli.
2: Hellið varlega úr flöskunni með því að halda við háls hennar með annarri hendi og hinni við botn hennar. Tyllið þumlinum inn við dældina í botninum til að hafa sem besta stjórn á bununni.