NEYÐARKALL — frá aðstandendum skipulagðra tónleika og viðburða
Opið bréf til stjórnvalda:
Ágæti viðtakandi. Við undirrituð, skipuleggjendur tónleika og viðburða á Íslandi, viljum vekja athygli á mikilvægi þess að þrengja ekki enn frekar að ábyrgu viðburðhaldi á næstu vikum og mánuðum.
Viðburðaiðnaðurinn á Íslandi hefur tekið á sig gríðarlegt högg í heimsfaraldrinum og algert lífsspursmál er fyrir tónlistarfólk og skemmtikrafta að komast aftur upp á svið og vinna vinnuna sína. Næstu vikur skipta sköpum í þessum efnum og ljóst að ef meira verður þrengt að viðburðum, með tilheyrandi súrefnisskorti, þá mun það enda með ósköpum.
Við sem hér tölum erum þess fullviss að við getum boðið fólki upp á örugga leið til þess að njóta menningar og skemmtunar á skipulögðum sitjandi viðburðum — í umhverfi sem er gerólíkt samkomum þar sem margir koma saman án sérstaks eftirlits.
Númeruð sæti, grímuskylda og/eða hraðpróf í þeim tilvikum sem reglur kveða á um, eiga að tryggja það að viðburðir fari fram á öruggan hátt. Auk þess er bólusetningarhlutfall þjóðarinnar nú þegar mjög hátt.
Að því sögðu er það umhugsunarvert að yfirvöld hér á landi geri viðburðarhald erfiðara og flóknara í framkvæmd hér en víða í nágrannaríkjum okkar, með auknum kröfum um hraðpróf, fjarlægðartakmarkanir og hópamyndun. Endalaus óvissa, breytingar á sóttvarnarreglum og stefnubreytingar gera okkur ómögulegt að skipuleggja viðburði — með tilheyrandi kostnaði, taprekstri, áhættu og hreinni tímasóun.
Við viljum að sjálfsögðu standa saman á næstu vikum, virða sóttvarnir og fylgja þeim reglum sem okkur eru settar. En á móti viljum við að okkur sé sýnd sú virðing að dyrum menningarlífsins sé ekki skellt enn og aftur í lás og þeir viðburðir sem þó eru í boði, innan settra reglna, séu talaðir niður af yfirvöldum og slegnir af.