„Það er þyngra en tárum taki að sökum vanfjármögnunar og skorts á heilbrigðisstarfsfólki hafi myndaðist grafalvarlegt ástand á bráðamóttöku Landspítalans um jólin. Neyðarástandið sem þar myndaðist var dauðans alvara og það er á ábyrgð stjórnvalda, því þau hafa vitað af ástandinu á bráðamóttökunni ekki bara svo mánuðum skiptir, heldur árum saman,“ segir Guðmundur Ingi Kristinsson í nýrri Moggagrein.
„Þá að sjúklingur sé sendur heim og hann látist þar nokkrum klukkustundum síðar er grafalvarlegt mál sem átti aldrei að eiga sér stað. Heilsa og öryggi borgaranna á að vera forgangsverkefni stjórnvalda. Hvort sem þetta neyðarástand á bráðamóttökunni leiddi til andláts mannsins eða mannleg mistök urðu þá er það grafalvarlegt mál sem verður að upplýsa og rannsaka til hlítar,“ skrifar þingmaðurinn.
„Fækkað hefur stórlega í hópi lækna á bráðamóttöku Landspítala og þá hafa uppsagnir hjúkrunarfræðinga skipt tugum og það þrátt fyrir ítrekað ákall þeirra og læknanna um aðgerðir strax vegna ástandsins.
Að starfsfólk bráðamóttöku sinni meira en helmingi fleiri sjúklingum en pláss er fyrir og verði þá að vinna og hlaupa tvisvar til þrisvar sinnum hraðar og brenna upp andlega og líkamlega er óviðunandi ástand og ávísun á mistök. Það þýðir að öryggi sjúklinga sé ógnað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Það er ekki hægt að tryggja öryggi sjúklinga við þessar aðstæður. Þá fara samskipti við sjúklinga í síauknum mæli fram frammi á gangi fyrir framan aðra sjúklinga og það um mjög viðkvæm málefni,“ skrifar Guðmundur Ingi.
Grein hans er í Mogganum í dag og er lengri en það sem birt er hér.