Stjórnmál

Neyðarástand ríkir í heilbrigðiskerfinu

By Miðjan

November 10, 2022

„Nú ríkir neyðarástand víða í heilbrigðiskerfinu okkar, starfsaðstæður eru óboðlegar á mörgum stöðum og biðlistar lengjast, fólk þarf að bíða dögum saman eftir tíma hjá heilsugæslunni og mönnunarvandinn vindur upp á sig,“ sagði Oddný Harðardóttir á Alþingi.

„Í upphafi þings sagði hæstvirtur fjármálaráðherra hróðugur að staðan í ríkisfjármálum væri mun betri en búist var við. Sú staða var ekki nýtt með fjárframlögum í fjárlagafrumvarpinu til að bæta heilbrigðiskerfið. Krafa er hins vegar gerð um að heilbrigðisstarfsfólk hlaupi hraðar, taki á sig enn meira álag og geri meira fyrir minna. Stóri vandinn á bráðamóttöku Landspítalans er skortur á hjúkrunarfræðingum. En ástandið er ekki bara slæmt á bráðamóttökunni í Reykjavík, það er líka slæmt á Suðurnesjum, á Suðurlandi og á Akureyri. Í morgun sagði hæstv. fjármálaráðherra frá því að komið hefði í ljós að staðan á ríkissjóði væri enn betri en gert var ráð fyrir þegar hann lagði fram fjárlagafrumvarpið. Heilbrigðiskerfið og velferðin verður að fá meira úr að spila á næsta ári ef ekki á illa að fara. Nýta verður betri stöðu einmitt til þess,“ sagði Oddný.