„Í gær var dreift til þingsins fyrirspurn minni til fjármála- og efnahagsráðherra og það að vonum, svo að ég leyfi mér að vitna í fyrirspurn mína, með leyfi forseta:
„Hvernig miðar áfram þeirri vinnu að „draga úr jaðaráhrifum tekjutenginga og tekjuskatts í almannatryggingum og gera kerfið gagnsærra og réttlátara“, eins og segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 2021 þar sem einnig kemur fram að ríkisstjórnin ætli að bæta afkomu ellilífeyristaka og líta sérstaklega til þeirra sem lakast standa? Hvernig sér ráðherra fyrir sér næstu skref í kjölfarið?“
Óskað er eftir skriflegu svari,“ sagði Viðar Eggertsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar. Viðar hefur komið ákveðinn til þings. Hann lætur af sér kveða.
„Ég sagði hér fyrr að fyrirspurninni væri beint að hæstvirts fjármála- og efnahagsráðherra, enda þekktur fyrir þá stefnu sína að lækka skatta og álögur, að vísu á þá best settu. En hvers vegna ekki einmitt á þá lakast settu? Það er með ólíkindum hversu skattalögin og skerðingarákvæði almannatrygginga rekast hvert á annars horn. Í skattalögum njóta almennir borgarar ýmissa frítekjumarka, eins og t.d. vegna ávöxtunar sparifjár sem safnar lágum neikvæðum vöxtum. Eins eru leigutekjur eingöngu taldar til tekna að helmingi fjárhæðar vegna þess kostnaðar sem leigusali ber vegna húsnæðisins. En þegar kemur að ellilífeyristakanum þá telst hvort tveggja að fullu tekjur og skerðir því af fullum þunga lífeyri frá almannatryggingum. Neikvæðir vextir teljast til tekna. Og eldri borgari, sem vill búa áfram í eigin húsnæði og leigja að hluta frá sér, bæði til tekjuöflunar og öryggis, að vera í nálægð við aðra, er gert það illa kleift vegna þessa.
Ég bíð í ofvæni eftir svari ráðherra.“