Nei við stofnu húsfélaga hjá Félagsbústöðum
Tillögu Katrínar Baldursdóttur, Flokki fólksins, um að stofnuð verði húsfélög í fjölbýlishúsum í eign Félagsbústaða. „Tillögunni hefur verið vísað frá og sagt að þetta sé ekkert á forræði borgarinnar. Borgarmeirihlutinn hefur ekki þor né kjark til að bera tillöguna upp til atkvæða,“ bókaði Katrín.
Meirihlutinn: „Eins og fram kemur í svari Félagsbústaða leggur fyrirtækið áherslu á að eiga góð samskipti við leigjendur og leysa farsællega úr þeim erindum sem berast. Félagsbústaðir hafa umsjón með um 2.700 leigueiningum og eðlilega berast ýmsar ábendingar frá íbúum um ástand íbúðanna og þörf á viðgerðum. Við öllum erindum er brugðist og þau sett í viðeigandi farveg. Þegar um er að ræða leka eða grun um að húsnæði geti verið heilsuspillandi eru mál sett í forgang.“
Katrín Baldursdóttir: „Allt er þetta sérkennilegt þar sem formaður velferðarráðs, sem sæti á í borgarráði á einnig sæti í stjórn Félagsbústaða svo hæg ættu nú heimatökin að vera. Í svari eða umsögn segir að verið sé að skoða að auka áhrif og samstarf við leigjendur og sé það í skoðun hjá undirbúningsnefnd. Það er jákvætt. Með stofnun húsfélags þar sem leigjendur eiga sæti getur sá fulltrúi gætt hagsmuna leigjenda í stjórn húsfélagsins. En fyrsta skrefið er vissulega að stofna húsfélagið. Það er ekki aðeins lýðræðislegt heldur einnig sanngjarnt að stofnuð verði húsfélög og að fulltrúi leigjenda eigi þar sæti til að tryggja enn frekar að rödd leigjenda heyrist. Þetta er ein helsta leiðin til að tryggja aðkomu leigjenda að málefnum íbúðanna s.s. nauðsynlegs viðhalds þeirra og tryggja aðkomu, þátttöku og áhrif þeirra á málefnum sem snúa að íbúðunum og sameigninni almennt séð. Þetta er líka leið til að sýna að Félagsbústaðir sem fyrirtæki borgarinnar sýni leigjendum tilhlýðilega virðingu og traust.“