Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, virðist gáttaður á framgöngu Ara Trausta Guðmundssonar í Silfrinu á sunnudaginn var. Þar var rætt um mál Guðjóns Skarphéðinssonar og ríkislögmanns. Ari Trausti sagði þar ríkislögmann vera sjálfstæðan í störfum sínum. Ámóta og ríkisendurskoðanda.
„Nei, Ari Trausti – svona heimskur ert þú ekki,“ skrifar Sighvatur í Moggagrein. „En svona heimskan lætur pólitísk afstaða þín til þeirra, sem málið mestu varðar, þig líta út fyrir að vera. Í hæsta máta er eðlilegt og sjálfsagt í máli eins og hér um ræðir að dómstóll sé fenginn til þess að skera úr um hvað rétt sé og sanngjarnt. Ríkislögmaður, fulltrúi ríkisvaldsins á þeim vettvangi, er ekki nauðbeygður til þess að krefjast þess, eins og hann gerir, að sá, sem leitar þar réttar síns, eigi að vera réttlaus með öllu. Það gerir hann í nafni ríkisvaldsins og auðvitað ekki nema þeir, sem hann starfar fyrir – í þessu tilviki forsætisráðherra og forsætisráðuneytið – láti slíkt a.m.k. óátalið ef ekki stutt. Ég varð bæði gersamlega hlessa en jafnframt miður mín eftir að hafa hlustað á viðtalið við þig í Silfrinu. Mér leið líkt og ég væri að endurhlusta á röksemdir margra þáverandi trúbræðra þinna þegar á dagskrá var innrásin í Ungverjaland eða áður þekktir atburðir á þeirra tíma átakavettvangi. Sama hugsun, sams konar „rök“. Þessi málflutningur er ekki þér samboðinn heldur í hæsta máta ámælisverður.“
Sighvatur tekur dæmi: „Er þá að þínum dómi málsvörn, t.d. ríkislögmanns fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu vegna skipunar dómara í Landsrétt, hans eigin ákvörðun, að hans eigin frumkvæði og á skjöni við vilja og álit dómsmálaráðuneytis og ráðherra? Og vörn ríkislögmanns fyrir Hæstarétti vegna kjötinnflutningsmálsins þvert á álit og vilja landbúnaðarráðherra? Allt bara að frumkvæði, mati og áliti ríkislögmanns sjálfs?“
Grein Sighvatar í Mogganum er mun lengri.