Fréttir

Nefndir Alþingis verklausar vegna seinagangs ráðherra

By Miðjan

November 17, 2022

„Ég kem hingað upp til að lýsa vonbrigðum mínum með þá staðreynd að fyrirspurnum þingmanna, í það minnsta þingmanna Viðreisnar, virðist ekki svarað. Það eru komnar á annan tug ósvaraðra fyrirspurna. Sérstaklega sakna ég svars við fyrirspurn sem ég lagði inn fyrir um 40 dögum þar sem ég vildi fá svar frá hæstvirtum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um hvers vegna rafræn skilríki á Íslandi fylgi ekki sömu stöðlum og gilda um rafræn skilríki í löndum Evrópska efnahagssvæðisins,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar.

„Ég hef líka beðið í um mánuð eftir svari frá hæstvirtum heilbrigðisráðherra um hvernig þjónustuveitendur, sem sinna Íslendingum sem fluttir eru úr landi á vegum stjórnvalda í aðgerðir erlendis, eru valdir og það sem er enn mikilvægara, hver það er sem ákveður verðið sem íslenskir skattgreiðendur borga fyrir það ævintýri. Hvernig er verðið ákvarðað? Þessi svör fást ekki og mér þykir það með miklum ólíkindum vegna þess að ég veit að hér eru heilu og hálfu fastanefndir Alþingis verklausar af því að ekki koma málin frá ráðherrum eða ráðuneytum. Er fólk enn þá að læra á afleiðingar af hinum 2 milljarða stóladansi ríkisstjórnarinnar? Er ekkert að frétta, herra forseti? Ég óska liðsinnis forseta.“