Marinó G. Njálsson:
Undir Eyjafjöllum, Mýrdalsjökli og Öræfajökli, í Mývatnssveit, bæði norðan og sunnan Ljósufjalla, nánast allt í kringum Snæfellsjökul og Hveragerði er með eldfjöll í bakgarðinum.
Enn og einu sinni er talað í fyrirsagnastíl. „Á ekki að byggja í áttina að eldstöðvakerfum“.
Nauðsynlegt er að horfa á stóru myndina. Þó eldgos hafi orðið í Grindavík, þá hefur byggð verið þar frá landnámi án ógna frá hraunrennsli í bæjarstæðinu. Var þá afleikur að reisa þar þorp og síðan bæ, sem hefur skapað óheyrileg verðmæti fyrir samfélagið og þjóðfélagið? Eldgosahrina er núna, en þeirri síðustu lauk um 1240. Þessi sem núna er í gangi á svæðinu verður gengin hjá áður en langt um líður, bæði í jarðsögulegum tíma og tíma þjóðarinnar. Kannski geta Grindvíkingar haldið upp á 50 ára afmæli kaupstaðarréttinda hinn 10. apríl nk. heima hjá sér. Hver veit?
Í Heimaey er eitthvað stærri byggð og þar gaus fyrir 51 ári. Hafði ekki gosið þar í einhver 5000 ár. Vissulega varð Surtsey til í eldgosum 6-10 árum áður, en jafnvel virtustu jarðfræðingar þess tíma töldu engar líkur á eldgosi í Heimaey svo stuttu eftir Surtseyjargosin og raunar töldu margir að ekki myndi gjósa aftur í Heimaey. Vissulega varð eyðileggingin mikil, en hún varð ekkert á við þau verðmæti sem þéttbýli í Heimaey hafði skapað fram að því og hefur skapað síðan.
Það er ekkert að því að byggja nálægt eldstöðvakerfum meðan íbúar, sem það gera og búa, skilja áhættuna sem því fylgir. Víða um land er byggð nálægt eldfjöllum. Undir Eyjafjöllum, Mýrdalsjökli og Öræfajökli, í Mývatnssveit, bæði norðan og sunnan Ljósufjalla, nánast allt í kringum Snæfellsjökul og Hveragerði er með eldfjöll í bakgarðinum. Ég hef ekki heyrt mikið af því frá jarðfræðingum að færa verði byggðina í Mývatnssveit, en hún er nær nýlegum hraunum heldur en fjarlægð byggðar á höfuðborgarsvæðinu er að Húsfellsbrunum sem komu upp á 10. öld. Verið er með orkuver ofan á virkum eldstöðvarkerfum. Tvö á norðurlandi, tvö á Reykjanesskaga og tvö hangandi utan í Henglinum. Og síðan eru nokkrar virkjanir á Þjórsársvæðinu innan seilingar frá Heklu og á svæði sem hún drekkti í ösku árið 1104. Af hverju vekur þetta ekki ótta, en byggð sunnan Hafnarfjarðar eða í Gunnarshólma á að vera hræðileg hugmynd.
Hvað er þá næsta? Ekki eigi að byggja nálægt bröttum hlíðum, vegna þess að þar geti fallið skriður eða snjóflóð? Vill svo til að það eru mun sterkari rök fyrir því að byggja ekki nálægt bröttum hlíðum en að byggja ekki í áttina að eldstöðvarkerfum. Á síðustu rúmlega 230 árum (þ.e. eftir að móðuharðindi og eftirkost þeirra voru liðin hjá) hafa brattar hlíðar krafist mun fleiri mannslífa en eldgos. Eignartjón hefur líka orði, þó það jafni ekki eignartjónið af Vestmannaeyjagosinu. Tjónið í Grindavík er að mestu vegna jarðskjálfta, en ekki vegna hraunsins sem rann yfir þrjú hús.
Við búum á landi, þar sem náttúruöflin eru illútreiknanleg, en milli þess sem þau ryskja sig, þá er lítið að óttast. Menn hafa tekið áföllin á kinnina og endurreist þá staði þar sem tjón hefur orðið. Þannig verður það með Grindavík og renni hraun að Völlunum, þá verður fyrst farið í að verja þá og dugi það ekki, þá verður svo að vera.
Þó byggð gæti farið undir hraun á næstu 2-3 hundruð árum, þá er það lengri tími en þéttbýli, svo heitið getur, hefur verið til á Íslandi. Mestu skiptir að ekki verði manntjón og fólk njóti byggðarinnar sem lengst fari hún síðar undir hraun eða jafnist við jörðu í jarðskjálftum. Alveg eins og fólk gerði í Litla-Héraði, í Skaftártungu og Landbroti, í Heimaey, aftur og aftur á Suðurlandi og núna í Grindavík.
Við vitum með vissu, að það mun gjósa í öllum eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga, að nýir Kröflueldar munu brjótast út, að Hekla, Katla, Öræfajökul, Hengill, Snæfellsjökull, Torfajökull og óteljandi önnur eldfjöll eiga eftir að gjósa með mismiklum afleiðingum og allt upp í að ný móðuharðindi skelli á. Líklega mun enginn þessara atburða gerast á morgun, næstu daga, en hugsanlega einhver þeirra seinna á þessu ári eða því næsta eða þar næsta eða er það eftir 10 ár, 20 ár, 100 ár, 1000 ár. Við vitum það ekki og ekki er hægt að setja uppbyggingu þjóðfélagsins í bið meðan beðið er og ekki heldur einstakra hluta þess, vegna þess að eitthvað gæti alveg örugglega gerst á næstu 2000 árum (en það er ca. tíminn síðan síðast gaus í Sundhnjúksgígum). Vissulega styttist tíminn í næsta gos eftir því sem lengra líður frá því síðasta og misjafnt er hve langt er á milli mjög stórra atburða. En hvort sem búist er við næsta gosi eftir ár, 10, 50 eða 100, þá verður þjóðfélagið að halda áfram sínu uppbyggingarferli, en samhliða því vöktum við náttúruna, undirbúum viðbrögð og verðum viðbúin þegar kallið kemur. Það sama á að gera gagnvart öflugum jarðskjálftum sunnan lands og norðan. Allt er þetta óhjákvæmilegt, en spurningin er hvenær.
Núna tel ég best að fara að undirbúa höfuðborgarsvæðið fyrir næsta stóra jarðskjálfta á Bláfjallasvæðinu. Hef það á tilfinningunni að hann komi áður en fari að gjósa á svæðinu. Endurkomutími slíkra skjálfta er mun styttri en eldgosanna, þó vissulega séu þau líka komin á tíma. Síðan er náttúrulega svartasta sviðmyndin fyrir höfuðborgarsvæðið, en það er að jarðskjálfti og eldgos fari saman. Þeirri sviðsmynd var gerð skil í bók fyrir nokkrum árum.
Greinina birti Marinó fyrst á eigin Faacebooksíðu. Greinin er birt hér með leyfi höfundar.