Nátttröllið við Háaleitisbraut
Lögmál frumskógarins urðu allsráðandi í íslenzku viðskiptalífi snemma á nýrri öld.
Hér er, á ábyrgð ritstjóra Miðjunnar, stuðst við valda kafla úr grein Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, sem birtist í því blaði í dag.
Fyrirsögn. Myndaval og myndatextar eru Miðjunnar.
Styrmir skrifar: „Sjálfstæðisflokkur síðustu aldar barðist fyrir frjálsu framtaki einstaklinga og samkeppni en hann studdi líka velferðarkerfið, sem Alþýðuflokkurinn var óumdeilanlega höfundur að á fjórða tug síðustu aldar. Sumir sögðu reyndar að Sjálfstæðisflokkurinn hefði orðið svo stór flokkur sem raun bar vitni þá vegna þess að hann hefði „stolið“ þeim hugsjónum Alþýðuflokksins. Þessi stuðningur Sjálfstæðisflokksins við velferðarkerfið var ekki sýndarmennska eins og sjá mátti á þeim merku umbótum, sem urðu í félagslegri þjónustu Reykjavíkurborgar í borgarstjóratíð Geirs Hallgrímssonar.“
Breytingar urðu þegar nýtt fólk komst til valda í Sjálfstæðisflokknum, undir forystu Davíðs Oddssonar.
Um það skrifar Styrmir: „Fyrir um fjórum áratugum varð til innan flokksins sterk hreyfing ungs fólks, sem kenndi sig við þær hugmyndir nýfrjálshyggjunnar svonefndu, sem mótuðu tíma Ronalds Reagans og Margrétar Thatcher. Vandi þeirra hér var sá, að á afskekktri eyju og í fámennu samfélagi kom í ljós að lögmál markaðarins virkuðu ekki nema að litlu leyti. Hér var meira um fákeppni (annað orð yfir einokun) heldur en frjálsa samkeppni.“
Og afleiðingarnar, hverjar urðu þær?
Styrmir: „En hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar átti áreiðanlega þátt í því að stjórnvöld þeirra tíma brugðust ekki af nægilegri festu við því, þegar lögmál frumskógarins (ekki markaðarins) urðu allsráðandi í íslenzku viðskiptalífi snemma á nýrri öld.“
Já, lögmál frumskógarins urðu allsráðandi.
En aðrir flokkar?
Styrmir: „Enn athyglisverðara var þó að vinstri flokkarnir og síðar arftakar þeirra brugðust heldur ekki við, heldur þvert á móti. Fyrstu milljarðamæringarnir urðu til á Íslandi vegna ákvörðunar vinstri stjórnar 1990, sem Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag áttu aðild að, um að gefa framsal kvótans frjálst. Þar er rót þess ójöfnuðar hér sem mótar mjög pólitískar umræður í okkar samtíma. Og vinstri menn létu ekki þar við sitja. Þetta er bakgrunnur þeirra þjóðfélagsátaka, sem standa yfir á Íslandi í dag.“
Og um hvað snúast þjóðfélagsátökin?
„Þau snúast um það, hvort það eigi að verða til hér á Íslandi tvö samfélög í stað eins, tvær þjóðir í stað einnar, þar sem tiltölulega fámennir hópar búa vel um sig í krafti aðstöðu, og verjast af hörku þegar hinn hópurinn, sem er mun fjölmennari segir: hingað og ekki lengra.“
Styrmir spyr sjálfan sig og svarar: „Endurspeglar flokkakerfið á Íslandi þessi átök eða þennan skoðanamun?
Það er ekki að sjá. Að sumu leyti má segja að stjórnmálastéttin, sem ræður ferðinni í öllum flokkum, standi saman um að verja þá aðstöðu, sem hún hefur búið til í kringum sjálfa sig og meðreiðarsveina sína, þ.e. æðstu embættismenn, stjórnendur ríkisfyrirtækja og stofnana.“
Og hver er staðan er hverjar eru og eða verða afleiðingarnar?
„Sjálfstæðisflokkurinn er enn stærsti stjórnmálaflokkurinn, þótt hann sé aðeins svipur hjá sjón miðað við það sem áður var. Þessi þjóðfélagsátök má greina þar innan dyra, þótt þau hafi ekki birzt opinberlega að neinu ráði.
Kjarasamningarnir, sem nú standa yfir snúast í raun um átök þessara tveggja þjóðfélagshópa. Í þeim báðum er fólk úr öllum flokkum.
Ef hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar, sem hér urðu til snemma á síðustu öld, laga sig ekki að breyttum aðstæðum og nýjum viðhorfum, leiðir það til einhvers konar „byltingar“ á flokkaskipan, sem samtíminn dæmir þá úrelta.“
Allur texti Miðjunnar er skáletraður til aðgreiningar frá texta Styrmis Gunnarssonar.