Nær allir flokkar á Alþingi ríghalda í sukkið
Að því hlýtur að koma að fólkið í landinu taki sér tak og setji þeim stólinn fyrir dyrnar.
„Nær allir flokkar á Alþingi, bankarnir og stórfyrirtækin virðast staðráðin í að ríghalda í sukkið sem setti landið á hliðina 2008. Þau hafa að því er virðist ekkert lært og engu gleymt. Að því hlýtur að koma að fólkið í landinu taki sér tak og setji þeim stólinn fyrir dyrnar.“
Þetta er síðasti kaflinn í fínni grein Þorvaldar Gylfasonar í Fréttablaðinu í dag. Þorvaldur er beittur að vanda. Fyrr í greininni víkur Þorvaldur að Seðlabankanum: „Seðlabankinn hefur tekið að sér að rannsaka sjálfur meint misferli innan bankans. Eftir að meint brot voru fyrnd birti bankinn loksins skýrslu um Kaupþingslánið án þess að nefna að þriðjungur lánsfjárins var lagður samdægurs inn á reikning á Tortólu 6. október 2008. Skýrslan bætti engu við það sem vitað var löngu fyrr, öðru nær. Fyrir skömmu birti bankinn svo aðra skýrslu um innflutning gjaldeyris til landsins eftir hrun. Skýrslan staðfestir að bankinn leit undan frekar en að spyrja um uppruna fjárins svo sem honum bar. Bankinn neitar enn að birta nöfn þeirra sem fluttu féð heim. Fjölmiðlar hafa upplýst að meira en þriðjungur fjárins kom frá Lúxemborg og Sviss. Bankaráðsmenn þurfa að upplýsa hvort og þá hvernig þeir ræktu lagaskyldu sína til að fylgjast með að bankinn færi að lögum.“